15.02.2011 18:19

Sögur af sjó og landi



Þessi bátur er eins og Skíði HU 8 og hét Hafdís HU 4

M/B Skíði HU-8 ferst með tveim mönnum.

Að kvöldi 21 nóvember 1961 voru Skagastrandarbátarnir  Máni og Húni  að leggja í línuróður og þar sem veðurspá var ótrygg réru þeir frekar stutt eða vestur í miðflóa og þar var línan lögð. Minni bátarnir Svanur HU 4  Vísir HU 10 Skíði HU 8  og Guðrún HU 2 réru um nóttina Svanur og Skíði norður á skallarif en hinir styttra. Þegar kom fram á morguninn fór veður mjög að versna með miklum sjógangi og þegar leið á daginn höfðu allir bátar skilað sér til hafnar nema Skíði. Talstöðvar  samband var haft við Skíða um hádegi og sögðust  þeir bræður Sveinn og Hjörtur eiga eftir að draga í  þrjá bala höfðu slitið og væru að leita og ætluðu að hafa samband við land klukkan þrjú þetta var það síðasta sem til þeirra heyrðist. Mjög slæmt sjólag var komið við Skallan þegar Svanur sem var 15 tonn lagði á stað til lands á undan Skíða sem var 8 tonn og dældu þeir bræður Baldur og Júlli út olíu vegna slæms sjólags og til að hlífa sér og  bátnum sem var komin til aldurs. Voru þegar í stað gerðar ráðstafanir til leitar að Skíða og haft samband við varðskipið Óðinn sem var statt á Húnaflóa og leitaði það alla nóttina einnig leituðu Húni og Máni en allt kom fyrir ekki. Veður fór stöðugt versnandi og aðfaranótt 23 nóvember var komið ofsaveður og aðstæður til leitar mjög slæmar  Óðinn hélt áfram leit alla nóttina frá Skallarifi og inn undir Vatnsnes en ekkert fannst. Að kvöldi 24 nóvember taldi fólk á Blönduósi sig sjá neyðarblys út á flóa og fór Óðin á hugsanlegan stað og þrautleitaði og Húni líka en ekkert fannst . 24 nóvember voru sendir leitarflokkar á Vatnsnes og gengu fjörur þar fannst brak úr Skíða skammt frá bænum Gnýstöðum línubelgir merktir bátnum björgunarfleki úr korki og fleira brak einnig fannst línubauja merkt bátnum undan bænum Sauðá  á Vatnsnesi öll leit var mjög erfið þennan dag vegna ofsaveðurs og lentu leitarmenn í hrakningum en stórviðri gekk yfir landið næstu daga með tilheyrandi skemmdum við sjávarsíðuna. Skíði HU-8 var smíðaður á Akureyri 1956 úr eik og furu 8 brl með 54 ha Lister diesel  keyptur til Skagastrandar 12 júlí 1958 af bræðrunum  Kristjáni A Hjartarsyni og Sveini G Hjartarsyni síðar varð meðeigandi  þriðji bróðirinn Hjörtur A Hjartarson allir kenndir við Vík.  Kristján sá um beitningu í landi þegar báturinn fórst. Það er mikið áfall fyrir lítið sjávarpláss eins og Skagaströnd þegar sjóslys verða og strax um kvöldið 22 nóvember 1961 var flestum ljóst að Skíði hefði farist og margir hafa átt andvökunótt og morguninn eftir var iðjulaus stór hríð og ætlaði pabbi að mæta í vinnu eins og venjulega og fer út en kemur inn strax aftur og er mjög brugðið og segir fátt en mamma gengur á hann og þá segist hann hafa mætt  Víkurbræðrum þegar hann kom út á Fellsbrautina og þeir voru rennandi blautir og var þetta ekki í fyrsta skiptið sem pabbi taldi sig sjá það sem var öðrum hulið. Varð ég mjög hræddur og fór lítið út eftir að þetta stórviðri gekk niður hræddur við að mæta þeim bræðrum einhverstaðar. Það var enginn björgunarbátur um borð í Skíða heldur lítill korkfleki með neti í botni og var ekki auðlosaður og sagt var að nýr gúmmíbjörgunarbátur hafi verið komin á staðin og verið geymdur uppí Kaupfélagsskemmu. Hvort það hefði einhverju breytt verður aldrei svarað. Þessi atburður kemur alltaf upp í huga mér þegar ég heyri vinsælt dægurlag frá þessum tíma með Ricky Nelson ! Hello Mary Lou. Því ég sökkti mér niður í að hlusta á gömlu gufuna til að reyna gleyma stað og stund núna í ár eru liðin 50 ár frá þessum sorgardegi. Hjörtur A. Hjartarson var 35 ára að aldri Sveinn G.Hjartarson var 40 ára þeir voru báðir ókvæntir og barnlausir og þeir bjuggu í foreldrahúsum í Vík.  Á þessum árum voru þrír samskonar bátar á Skagaströnd. M/b Skíði HU 8  1956 Hafdís HU 4  1954 og Flugaldan ST 121.  1956.


Eigendur Skíða: Kristján, Hjörtur og Sveinn

Rifjað upp í febrúar 2011 á Skersó.

Valdi hún.

 












Flettingar í dag: 199
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 240
Gestir í gær: 41
Samtals flettingar: 205497
Samtals gestir: 22568
Tölur uppfærðar: 3.5.2024 20:07:05