02.05.2010 14:52

Sögur af sjó og landi

Sögur af sjó og landi

 

Beta í Brautarholti og Ólafur sonur hennar sóttu á huga minn og mig langaði að rifja upp það sem ég mundi og heyrði um þeirra langa lífshlaup á Skagaströnd nú 52 ári eftir hörmulegan endir á hennar lífi þann 11 janúar 1958. Ég var 9 ára þegar hennar lífshlaupi  lauk og í minningunni var þessi litla gamla kona eins og svartur skuggi þegar hún gekk um götur á ströndinni alltaf í skósíðri svartri kápu og svört í framan og hárið eins og það hafi aldrei verið þvegið og engar tennur.  Ólafur sonur hennar leiddi  hana hönd í hönd niður Fellsbrautina líka í skósíðum svörtum frakka en Beta var orðin nánast blind og Óli litlu skárri með sjón og kannski  með tvær tennur. Mér fannst stundum þau vera allan daginn að labba í gamla kaupfélagið sem stóð rétt norðan við Holt eða í verslun Andrésar Guðjónssonar (gamli Kántríbær) en þau fóru aldrei nema fetið.  Brautarholt stóð við Fellbrautina síðustu árin en áður var lítið tún sunnan við bæinn þar sem Fellsbrautin er núna. Brautarholt var byggt utan í svokallaðan Gónhól úr torfi og grjóti en framhlið úr timbri einhver gripa hús voru inn af bænum tóm hrófatildur þar hafði Óli nokkrar kindur.  Þarna bjó Beta í sárri fátækt. Það var gengið inn í bæinn um lítinn skúr og var herbergið hennar Betu þar fyrir innan svo tók við herbergi Óla og Þuríðar konu hans. Óli gekk alltaf undir aukanafninu gón. Í þau skipti sem ég kom í Brautarholt var ég að sendast með eitthvað fyrir pabba rauðmaga eða eitthvað annað til að gefa að borða og fannst mér hreinasta ævintýri þegar mér var boðið í bæinn en ég er ekki frá því að ég hafi verið hálf smeykur líka og aldrei gat ég borðað neitt af því sem Beta bauð mér upp á t.d. kex eða eitthvað annað þegar út var komið hafði ég ekki list á  því. Mér er en minnistætt eitt Sinn er ég var sendur til Betu en þá var hún að vaska upp diska ekkert vatn var og með grútskítugri tusku  þurrkaði hún matarleifarnar af disknum og setti upp í rekka á veggnum. 

Allt annar bragur var hjá Þuríði konu Óla í innri bænum þrifalegt og hún snyrtileg og hrein þrátt fyrir fátæktina en sjaldan sá ég Þuríði koma út fyrir bæjardyr. Það voru fastir liðir hjá Óla að skvetta úr skólpfötunni út fyrir túngarðinn á morgnanna og sækja vatn í brunninn sem var við bæinn ég held bara að þetta hafi verið sama fatan  "fjölnota". Mikill hverfisteinn stóð á hlaðinu þar brýndi karl ljáinn en ekki held ég að hann hafi verið mikill sláttumaður en karlinn sótti sjó á yngri árum suður á land. Í Húnavökuriti 1970 og 71 fjallar séra Pétur Ingjaldsson um Ólaf sem ungan  mann og taldi að hann hefði  hneigst meir til bókar en erfiðisvinnu og fjallar einnig um Elísabetu móður hans þær hörmungar sem hún og aðrir máttu þola um aldamótin 1900 og framan að þeirri öld en ekki orð um 11 desember 1958 hefur sést á prenti hingað til. Séra Pétur sýndi alla tíð Brautarholts fólkinu rækt og vinskap meðal annars sá hann svo  um að Óla  hlýnaði um hjartarætur reglulega að kristinna manna sið.

Óli sótti stjórnmálafundi og mannfagnaði og tók þá gjarnan til máls og þótti fólki oftast nóg um er Óli fékk orðið því mikið gap og geiflur smjatt og þagnir fylgdu jafnan með og síðan kom kannski: fundarstjóri í fyrsta lagi kemur mér þetta ekki við í öðru lagi þá hef ég ekki vit á þessu  og í þriðja lagi þá er ég alveg að drepast úr tannpínu. Óli var ekki mikil tilfinningavera eins og væntanlega margir af hans kynslóð og segir sagan að þegar Þuríður kona hans lá banaleguna á Héraðshælinu á Blönduósi gerði karl sér ferð inneftir til að heilsa upp á kerlu sína og segir er inn að rúmi hennar kemur:  nú ert þú að deyja Þuríður og dregur upp tommustokk og hyggst slá máli á kerlu sína. Eitthvað líkaði starfsfólki Héraðshælisins þessar aðfarir karlsins ekki og var honum vísað á dyr en Þuríður grét undan mælingunni. Alveg frá fyrstu minningu um Óla gón var hann gamall og hrumur og man ég vel eftir heimsóknum hans þegar ég átti heima  í Dagsbrún. Þegar þessir atburðir skeðu er Óli 67 ára sem þykir ekki hár aldur í dag. Ég var nábúi Óla í mörg ár byggði norðan við Gónhól að Hólabraut 12 áttum við oft spjall um alla heima og geyma og var karlinn greinilega vel lesin og þegar blindan varð algjör fylgdist hann vel með öllu í útvarpi. Einhverra hluta vegna kom ég aldrei inn í Brautarholt eftir að ég varð fullorðin kannski var myrkfælnin einhverstaðar ennþá hver veit.  Eftir að Óli fór inná Héraðshælið heimsótti ég hann ef ég átti leið um og alltaf  þekkti hann röddina í mér þá orðin alblindur og í síðasta skiptið sem ég hitti Óla lá hann með brennivíns flösku í hendinni í rúminu og hélt fast um stútinn og sagði mér farir sínar ekki sléttar því starfsfólkið væri alltaf að stelast í flöskuna og hún því alltaf tóm en allir vissu að sá gamli staupaði sig ANSI hressilega og þar lá nú hundurinn grafin og flaskan galtóm. Óli lést 6.10.1985. þá 94 ára. Sem góðir grannar sóttum við Jón Helgason kistuna inn á Héraðshæli og komum fyrir í Hólaneskirkju. En víkjum nú aftur að Betu gömlu eins og hún alltaf kölluð mig grunar að lífið og fátætin hafi ekki farið mjúkum höndum um Elísabetu Karólína Ferdínandsdóttir eins og hún hét fullu nafni var  fædd í Kurfi 1865 og eldri systir hennar Margrét fædd ( 1859-1955) bjó í Hátúni í Nesjum bróður áttu þær sem Gísli hét (1831-1902) faðir þeirra og kona hans Herdís Sigurðardóttir (1838-1889) bjuggu í Kurfi á þessum árum en seinna í Örlygsstaðaseli sem seinna var kotbýlið Hólmi. Beta eignaðist þrjú börn: Ólaf Jón Guðmundsson  Brautarholti fæddur á Hofi (1891-1985) Eiginkona Þuríður Jakobsdóttir (1880-1965)  þau voru barnlaus

Halldór Jónsson Guðmundsson bóndi Hólma fæddur á Klöpp á Kálfshamarsnesi (1893-1981)

Eiginkona Hlíf Sveinsdóttir (1882-1926) Þau áttu 4 börn og eiga fjölda afkomanda 

Herdísi Antoníu Ólafsdóttir  (1896-1926) kennari Blönduósi  hún var gift Halldóri Leví verslunarmanni Blönduósi þau voru barnlaus. 

Beta hefur væntanlega þvælst á milli bæja sem vinnukona eins og svo margir fátæklingar á þessum árum en 1915 byggir Ólafur sonur hennar Brautarholt er trúlegt að það hafi verið hennar fyrsta örugga heimili og einnig það síðasta. En svo rennur upp 11 desember 1958 sem var ósköp venjulegur dagur í Höfðakaupstað eins og það hét þá nú Skagaströnd fram undir hádegi. Ég sat við eldhúsborðið heima á Fellsbraut 5 og var að borða hádegismat borðið stóð undir austurglugga en við bjuggum á annarri hæð og gott útsýni pabbi sat á móti mér við borðið ágætt veður var en miklir snjóruðningar á götum og skóf lítils háttar.

Flutningabílstjórinn Valdimar Númi Guðmundsson (1926- 1972 var að losa vörur úr flutningabíl sínum H-275 sem hann kom með að sunnan úr Reykjavík daginn áður fór hann niður í mýri að losa húsgögn hjá Kristófer Árnasyni á Sunnuvegi 1. Hjalti bróðir minn var að hjálpa Núma að losa og kom labbandi yfir Reykholtstúnið. Engin leið var að snúa bílnum við og varð Númi að bakka alla leið upp á Fellsbraut þegar hann kemur í brekkuna hjá Reykholti voru snjóruðningarnir hvað hæstir og var eitthvert kóf í snjógöngunum sem settist hugsanlega á baksýnispegla bílsins mér verður litið út um gluggann þegar bíllinn er  að byrja að koma  í gegn um ruðninginn og sé einhverja svartar þústir aftan við bílinn og segi við pabba að ég heldi að strákarnir í Reykholti  séu að hanga aftan í bílnum hjá Núma.

Palli í mýrinni var nýfarin út frá okkur eftir eitthvað erindi við pabba næsta sem ég sé er að bíllinn stoppar og Númi stendur framan við bílinn og veifar báðum höndum eins og óður maður og Palli kallar Skafti Skafti komdu fljótt pabbi stökk á fætur með hníf og gaffal í hendi og með það  hljóp hann út til Núma og þá kom skelfingin í ljós á götunni fyrir framan bílinn lágu tvær manneskjur önnur látinn en hin stórslösuð. Beta var að koma úr Brautarholti og ætlaði í mat í Reykholti (Fellsbraut 6) til Laufeyjar Jónsdóttur (1897-1969) en sú heiðurskona mátti aldrei neitt aumt sjá og má segja að hún hafi stofnað fyrsta elliheimilið á Skagaströnd. Hjá henni í heimili var Páll Ingvar Jónsson fæddur 3-9 -1887 í Álftaneshreppi kenndur við Finnstaði hann var orðin 71 ára. Biður Laufey Pál að fara á móti  Betu og hjálpa henni yfir snjóruðningana en hún var orðin 93 ára og nánast blind gekk ferðin því seint en þegar þau koma á brún snjóruðningsins gerist annað hvort þau sjá ekki bílinn eða detta niður á götuna sem var bara eins bíls breidd og því fór sem fór. Beta lést samstundis en Páll lærbrotnaði og eitthvað meira þau voru borin inn í Reykholt í teppum var pabbi að hjálpa til við þetta en Páll var fluttur inn á Blönduós á sjúkrahúsið þar lést hann þremun dögum seinna.
Þau voru jarðsett í Spákonufellskirkjugarði hlið við hlið en nýfætt andvana stúlkubarn frá Blönduósi var sett í kistuna með Betu.

Seinna komst ég að því að þetta var systir eiginkonu minnar. Óli hélt líkræðu yfir mömmu sinni sem hófst á þessum orðum. Nú er mamma dauð. Númi drap hana hérna  upp á melnum. Ég man hvað mér fannst þetta skrýtið orðalag og eins þegar hann kom á slysstað og spurði er mamma dauð?  Mér fannst eiga að segja dáin. En svona var bara Óli í Brautarholti öðruvísi. Allir bæjarbúar voru í áfalli eftir þennan atburð en lítið var um hann rætt út á við meira í hljóðum í heimahúsum að tillitsemi við Núma og hans nánustu. Þessi atburður allur fór ansi illa í sálartetrið á mér og var ekki á bætandi ég var frekar myrkfælinn á þessum árum og verða nánast áhorfandi að slysinu bætti ekki um. Eftir á að hyggja tel ég það eitthvað með myrkfælnina að gera hafi verið foreldrum mínum að kenna (ómeðvitað) og því fólki sem kom í heimsókn til þeirra sem hafði alist upp í moldarkofum og ljósleysi síðustu aldar og efaðist ég aldrei um að allt sem þetta fólk sagði  væri satt og rétt og líklega trúði fólk þessari vitleysu sjálft og eftir hefðbundið draugasögu kvöld var ég svo hræddur að ég sofnaði ekki og lá tímunum saman með sængina  yfir höfðinu því að það var sama hvert ég leit ekkert nema draugar og þegar verst lét pissaði ég heldur í rúmmið en að fara á klósett. En lengi getur vont versnað þar sem pabbi var með þeim fyrstu sem kom að slysstað kom fólk til að frétta af hvernig  aðkoman hefði nú verið og hlustaði ég á þessar hryllingssögur kvöld eftir kvöld og það sem kannski alverst var að ég þurfti að sækja á hverju kvöldi einn lítra að mjólk suður í hús eins og það var kallað heima (Sunnuveg 3) til Jóhannesar og Dagnýjar ekki þorði ég fyrir mitt litla líf að fara veginn þar sem slysið varð og í dag heitir Sólarvegur enda engin götulýsing. Ég klöngraðist heldur framhjá fjárhúsunum í Reykholti og yfir túnið og setti örugglega mörg íslandsmet í spretthlaupi og alltaf fannst mér einhver vera á eftir mér. Þetta var langur og strangur  vetur út af hræðilegu slysi einum mjólkurlítra og myrkfælni á háu stigi.

Fljótlega fór að bera á að Páll Yngvar Jónsson var ekki sáttur við sinn legstað og kom það að mig minnir fram í draumum þeirra Reykholtsystra og endaði með því að hann var grafin upp og færður við hliðina á grafhýsi þeirra Reykholtshjóna sem þau höfðu látið reisa sér en nú hefur verið jafnað við jörðu. En Elísabet Karólína Ferdinandsdóttir hvílir sátt á sinum stað með nýfætt barn við brjóst sér nú 145 árum frá fæðingu sinni og er elsta manneskja sem ég man eftir enda orðin 84 ára þegar ég fæddist. Litla stúlkan sem hvílir hjá henni hefði orðið 52ára á þessu ári. Svona er nú lífið og dauðinn og engin sleppur.

 

 

Þessi saga þótti ekki hæf til birtingar í Húnavökuriti

 

Valdi hún

Skersó Janúar 2010                                    

                                 

 

                    

 

 

 

 

Flettingar í dag: 676
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 2109
Gestir í gær: 38
Samtals flettingar: 420199
Samtals gestir: 39407
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 18:29:52