21.03.2014 13:59

Lítið ljóðSkafti Fanndal Jónasson

Litla ljósið

Ég ungur átti lítið ljós

sem  lifði í blárri skel.

Það fékk hjá sumum fagurt hrós

mér fannst það lýsa vel.

 

Og við þetta litla ljós

sem lýsti furðu vel.

Las ég sögur, líka ljóð

og lærði allt mitt kver.

 

Og um lítið ljós sem var

læt ég hugann sveima.

Hvað það góða birtu bar

í baðstofunni heima.

 

Skafti Fanndal Jónasson frá Fjalli.

 

 

08.03.2014 10:56

Sagan af Dagsbrún

Dagsbrún Skagaströnd.


Þetta er trúlega elsta myndin sem til er af Dagsbrún svarti skúrinn við Einbúann.

Nú er best að rifja upp aðdragandann að byggingu Dagsbrúnar og flutninginn til Skagastrandar.  Þá vorum við Jóna mín ung.

En að búa á Fjalli leist mér ekki vel á ég átti fátt fé og mæðiveikin var komin í minn litla fjárstofn og farin að höggva skörð í hann. Vorið 1941 fluttum við Jóna mín frá Fjalli til Skagastrandar.

Þennan vetur lá faðir minn veikur og dó hann um vorið þann 21 apríl. Þetta var mjög erfiður vetur þó var tíð góð og voraði snemma. En ég hafði mikið að gera með alla aðdrætti til búsins og líka þurfti alloft að sækja meðul inn á Blönduós  ásamt búverkum heima. En Jón Ólafsson kom að Fjalli um haustið með um 20 kindur og einn hest. Gekk hann að hirðingu með mér og marga daga sá hann einn um gegningar. Hann var góður fjármaður en hann var fatlaður og gat ekki unnið erfið verk. Á ég honum að þakka að ég gat sinnt öðrum störfum. Um veturinn var það af ráðið af föður mínum að Angantýr og Jóhanna systir tækju við jörðinni um vorið en við flyttum til Skagastrandar. Angantýr og Jóhanna bjuggu að Marlandi á Skaga. Það var í einni Blönduós ferðinni minni að ég gisti hjá Jóni Ben hann bjó á syðri brekkunni á Blönduósi það barst í tal að ég mundi flytja til Skagastrandar þá um vorið en hefði ekki neitt húspláss.  Jón var mjög kunnugur foreldrum mínum og vinfengi þar á milli. Sagði Jón mér að hann gæti selt mér lítið hús sem hann ætti það stæði uppá melum fyrir ofan Blönduós.  Ég varð mjög spenntur svo hann fór með mig að skoða það.


Hér sést í svartan stafninn á Dagsbrún undir Einbúanum.

Það var lítið 3,80 m. Á breidd og 6,50 m. Á lengd vatnsklæðning að utan en panill að innan og stoppað með torfi lágt ris með járnklæðningu. Það leit vel út stóð þarna á staurum. Leist mér vel á húsið þótt lítið væri. En við það mátti byggja. Við Jón gengum frá kaupunum kostaði það 800 krónur þar sem það stóð. Jón lofaði að smíða nýja glugga og rífa það með mér og var það innifalið í kaupunum.  Ég fór glaður heim og sagði þessi góðu tíðindi. Jóna mín varð glöð og pabba leist vel á þetta.

              

Brúðarmyndin af Skafta Fanndal og Jónu Guðrúnu við Ketukirkju 17 júní 1939.

En þú þarft að byggja við það eldhús og geymslu sagði hann. Þú mátt saga spýtur úr þeim rekavið sem til er. Farðu síðan út á Skaga og fáðu góðar spýtur þar.. Ég fór strax við fyrsta tækifæri með hest út á Skaga og keypti við af Bjössa í Nesi og Árna í Neðra Nesi mjög góðar spýtur sem hægt var að saga í borð. Við Hallgrímur frændi á Skeggjastöðum vorum búnir að vinna mikið við sögun út á Skaga og víðar.  Söguðum við heila húsgrind og klæðningu á hús á Hvalnesi á Skaga og unnum líka við smíðar á því húsi. Töldum við okkur færa um að byggja mitt hús. Réði ég Hallgrím í þetta verk með mér. Gripum við í að saga þegar stund gafst frá heimaverkum  sem við báðir þurftum að sinna. Kom hann ríðandi upp í Fjall þegar hann gat og þá var sagað af krafti. Við settum upp sögunarvirki yfir gamla votheysgryfju sem stóð á hlaðvarpanum. Þar var gott að velta drumbunum á virkið. Það var mjög góð tíð þegar kom fram á útmánuði og það voraði snemma. Jón sinnti um féð en ég leysti allt hey. Nú var næst að fá lóð undir húsið. Ég hitti Sigurð Jónsson hreppstjóra á Skagaströnd og mældi hann mér út lóð suðvestur af kirkjunni fyrir neðan Iðavelli. Iðavellir standa enn þegar þetta er skrifað. Síðan var að fá peninga fyrir húsakaupunum. En það átti að greiðast þegar það væri sótt. Ég var í reikning hjá Kaupfélaginu en átti lítið inni Grímur Gunnarson var Kaupfélagsstjóri hann tók við af Ólafi Lárussyni en þá var allt á kafi í skuldum hjá félaginu. Svo Gunnar var tregur til að lána sem von var enda lítið til af peningum. Fór ég nú að hitta Gunnar og spurði hvort hann gæti lánað mér átta hundruð krónur í peningum segi ég honum eins og er frá húsakaupunum  ég sé að flytja frá Fjalli og hætta búskap. Sagðist hann vita af þessu þar sem hann sæti í hreppsnefnd og nefndin búin að afgreiða það mál og mæla mér lóð og væri það allt í góðu lagi. Þá var búið að skipta Vindhælishrepp í þrennt og  ég að flytja í annað hreppsfélag. Gunnar spyr mig hverju ég geti lofað í innleggi í haust. Ég þorði engu að lofa því mæðuveikin er í fénu en það sem lifir í haustverður slátrað en ég á þrjú hross sem Guðmundur á Sæunnarstöðum er búin að kaupa og greiðir með innskrift í haust.  Ég beið lengi eftir svari þegar ég er búin að romsa þessu öllu út úr mér. Hann horfði á mig og sagði ekki neitt. Ég beið. Gunnar tók nú lykla upp úr vasa sínum og opnaði peningaskáp og tók þar út átta hundruð krónur í umslagi og fékk mér. Þú þarft að kvitta þú átt inni eitt hundrað krónur en ég á lítið af byggingarefni það er svo vont að fá það á þessum stríðstímum en ég á ögn af þakjárni á ég að taka það frá fyrir þig. Svona var Gunnar..   Ég fór glaður heim. Faðir minn lá veikur allan þennan vetur eins og áður er skrifað á þessum blöðum.  Oft var hann mikið þjáður og þurfti mikið af kvalastillandi meðulum. Hann dó að kveldi 21 apríl 1941 og var jarðaður frá Hofi 3 maí. Mikið fjölmenni var við jarðaförina. Angantýr og Jóhanna fluttu að Fjalli 14 maí og þá fyrst gat ég farið að snúa mér að húsasmíðinni. Þann 6 maí fórum við Hallgrímur frændi og Páll á Bakka inneftir til að grafa fyrir grunninum og steypa sökkla. 10 maí var grunnurinn tilbúin.


Villi, Hjalti og Jónas fyrir framan Dagsbrún Anna og Valdi eru í glugganum. Myndin er tekin í kring um 1951. Sjá stafninn á Iðavöllum.


Dagsbrúnarsystkinin 62 árum seinna standa þar sem húsið stóð.Sjá stafninn á Iðavöllum.

12 maí fór ég af stað frá Fjalli mjög snemma um morguninn og teymdi reiðhjólið mitt ofan á veg þar beið Hallgrímur eftir mér á reiðhjóli. Nú var hjólað inn á Blönduós til Jóns greiddi ég honum húsverðið. Hann kom með okkur að rífa húsið og gekk það vel rifum við það í fleka. Sófanías bílstjóri á Blönduósi flutti það en hann var með bílinn á staðnum og látið á hann jafnóðum. Þetta gekk vel allt komið á byggingastað um kvöldið. Til gamans má geta þess að Sófanías tók 25 krónum fyrir flutninginn. Páll á Bakka var með okkur Hallgrími að reisa flekana og setja þá saman að öðru leiti unnum við frændurnir að þessari smíði. Viðinn sem við söguðum á Fjalli var ég búin að flytja á kerru inneftir svo hann var þarna við höndina. Unnum við að smíðinni af miklum krafti mátti segja að við hefðum unnið bæði dag og nótt og höfðum gaman að en við vorum báðir hneigðir til smíða. 3 júní fluttum við frá Fjalli í okkar eigið hús sem við nefndum Dagsbrún.


Þarna er Dagsbrún komin í eigu Einars Haraldssonar.

                                     

Skafti Fanndal og Jóna Guðrún standa við gaflinn á Dagsbrún.

        

Mynd af Dagsbrúnarkrökkunum tekin ca,1050.

Frá Fjalli fluttum við búslóðina á einni kerru en ég var búin að flytja ýmislegt dót áður. Þau í Hvammkoti Kristján og Guðríður systir mín fóru með okkur inneftir  Kristján teymdi kúna ég hestakerruna Jóna mín reiddi Jónas litla. Hann var fæddur 26 febrúar og skírður yfir kistu afa síns. Mamma hans hélt honum undir skírn og Guðríður systir hélt á dóttur sinni hlaut hún nafnið Ásta. Guðríður reiddi Hjalta hann var fæddur 8 mars 1940 ferðin gekk vel og nú vorum við flutt í Dagsbrún. Þar eru þrjú af börnunum okkar fædd Vilhjálmur Kristinn 9 apríl 1942 Anna Eygló 12 júní 1944 og Þorvaldur Hreinn 6 júní 1949. Við eignuðumst líka andvana drengi fædda 1952 og 1954. Það var sár reynsla. Oft var byggt við Dagsbrún og hún stækkuð á ýmsa vegu. Vorið 1958 kaupum við efri hæðina á Fellsbraut 5 þá seldi ég Dagsbrún Einari Haraldssyni og Ólínu Hjartardóttur frá Kjalarlandi bjuggu þau þar til 1985 en þau dóu bæði á því ári. Þá var Dagsbrún rifin allt flutt á hauga og brennt. Þá var húsið búið að búa í húsinu samfellt í 42 ár. Við bjuggum þar í 17 ár en Einar og Ólína í 25 ár. Þá var Dagsbrún öll. Og þó !! Á Dagsbrúnar hlaðinu er búið að reisa stórt hús upp á þrjár hæðir Stjórnsýsluhús. Á mið hæðinni er hótel sem hefur fengið nafnið Dagsbrún svo nafnið er enn til.


Skafti Fanndal Jónasson fæddur 25 maí 1915  látinn 2 september 2006.

Jóna Guðrún Vilhjálmsdóttir fædd 15 júlí 1918 látin 13 júlí 2003.

Þau hvíla saman í Spákonufellskirkjugarði


Smá eftirmáli um Dagsbrún:

Á árunum 1936-37 var þetta litla hús reist norðan við Einbúann fyrir verkstjóra í hafnarvinnunni. Hét hann Jón Dagsson bjó hann í því um sumarið. Þá var það selt Guðmundi Kolka á Blönduósi. Hann flutti það þangað og reisti það á staurum. Jón Ben keypti það af Guðmundi ætlaði hann að flytja það heim til sín og hafa það fyrir smíðaverkstæði. Jón var góður smiður. En Jón seldi mér húsið og það var upphafið að heimili okkar sem nefndist Dagsbrún.


Teikning af Dagsbrún eftir Sveinbjörn Blöndal.


Dagsbrúnarkrakkarnir fyrir framan gamla bæinn á Steiníarstöðum 1955.


Valdi hún, Villi og Dísa frænka fyrir framan Dagsbrún.Hér fremst á sjávarkambinum er Bræðraminni hús sem bræðurnir Skafti og Ólafur frá Fjalli byggðu fyrir móður sína Sigurbjörgu Jónasdóttur.

Hér er komin saga Dagsbrúnar skrifað og rifjað upp í mars 1995.    

Skafti Fanndal Jónasson


28.02.2014 17:29

Sögur af skotum á landi 1967Örn Berg Guðmundsson og Valdi hún um borð í Helgu Björgu 1966

Sögur af skotum á landi  1967

Sá  atburður sem hér verður sagt frá átti sér stað sumarið 1967 og endaði nokkuð sögulega svo ekki sé meira sagt söguhetjur voru eftirtaldir: Sigurður Pálmason Pálmalundi fæddur 1948. Örn Berg Guðmundsson (Assi) Höfðabrekku fæddur 1949. Og sögumaður Þorvaldur Hreinn Skaftason Fellsbraut 5 fæddur 1949 allir búsettir á Skagaströnd. Í þá daga tískaðist  almenn byssueign á meðal okkar strákanna og leifi fyrir skotvopnum lítt haft í heiðri og gengu byssur og skot kaupum og sölum milli manna eins og hver önnur nauðsynjavara og vantaði bara að byssur fengist í verslunum eins og Borg hjá Sigga Sölva kaupfélagi Skagstrendinga eða Andrésarbúðinni. Einu sinni sem oftar vorum við áður nefndir félagarnir að koma af einhverju ralli og allir uppábúnir og sótti á okkur mikil  löngun til að fara á gæsaskyttirí fram í Langadal um bjarta sumarnóttina ekki gafst tími til að hafa fataskipti bara gripnir þrír rifflar og skot og ekið á stað á Taunus 12m fólksbíl sem Siggi  Pálma átti en Assi var tekin við að keyra sjálfsagt vegna þess að hann var minnst fullur var nú skál og syngja fram að Fremstagili en þar fyrir neðan vegin við tjörnina töldum við okkur sjá bráð og stökk ég út úr bílnum til að komast í betra færi og stoppaði á vatnsbakkanum og bráðin örugglega löngu flogin burt. Siggi sat frammí bílnum hjá Assa og var með riffylin í höndunum og allt í einu sér Assi að hann er að miða á mig og hrópar ekki skjóta og varð það mér til lífs að ég heyrði hrópið og snéri mér við og um leið dett ég um koll og fann að ég hafði orðið fyrir skoti spratt ég á fætur og tók öryggið af rifflinum og beindi honum að Sigga og öskraði ætlar þú að skjóta aftur helvítis hálfvitinn þinn og þannig gekk ég upp að bílnum tilbúinn að skjóta. Siggi bara hló eins og hálfvitar gera en snögghætti þegar ég sýndi honum á mér hægri mjöðmina en þar stóðu út tvær blóðbunur með svona tíu cm. millibili og ljóst að kúlan hafði farið inn og út aftur mér létti töluvert við það og var nú snúið við í hasti og stefnan tekin á sjúkrahúsið á Blönduósi og Sigursteinn tróð einhverju í götin og var ekki par hrifin af því að vera vakin upp um miðja nótt og vildi láta kalla í lögreglu en ég neitaði að segja frá hvað kom fyrir svo engin lögga kom. Að lokum sagði Sigursteinn að það væri kraftaverk að ég hefði ekki verið drepin því kúlan kom svo nærri slagæð. Heldur var nú lágt risið á okkur félögunum á leið til Skagastrandar Sigga varð svo mikið um þegar hann sá blóðbunurnar að hann sagði ekkert einasta orð meira í túrnum og ég bullaði eitthvað um að sárast væri að níu jakkafötin mín væru ónýt en innst inni var okkur öllum illa brugðið. Sigurður Pálmason hvarf daginn eftir alfarinn frá Skagaströnd en ég lá í rúminu nokkra daga sárþjáður á sál og líkama og kom Helena Ottós ljósmóðir til mín og skipti um umbúðir reglulega því hún var mjög hrædd um að ég fengi blýeitrun í sárin. Þegar ég fór að skríða saman eftir þetta alltsaman fór ég eitt kvöldið í bíó í gömlu tunnunni bauð Kristján Hjartarson mig sérstaklega velkomin og sagði ég er hér með vísu og kvað við:

 

 Sigurður Pálmason

 

Því skal ekki lengur leynt

og ljótt er það með sanni.

Að sumir ekki geta greint.

Gæs frá ungum manni

 

 

Seinheppin er Sigurður

sá er ekki miðin á  

Því hlaut verslings Þorvaldur

það sem gæsin átti að fá.

 

 

Þorvaldur í fljóða fans

finnur sína gleði á ný

Nú má ekki í návist hans

nefna gæsaskytterí.

 

 

         

 

                                                                                              Það er hægt að segja með sanni að þetta eina skot hafi haft gríðarleg áhrif á líf mitt og hefur enn ég átti og á enn erfitt með svefn og sótti atvikið mjög í huga mér og spurningin ætlaði Siggi að drepa mig eða ekki hvað hefði skeð ef Assi hefði ekki kallað og ég hefði ekki snúið mér við og kúlan komið í mig miðjan ?  Og hef ég þurft að leita til fjölda lækna vegna svefn truflana og kvíðakasta eru allar líkur á að þær sé hægt að rekja til þessa atburðar og enn fæ ég slæman verk í mjöðmina og verð draghaltur ef snögg veðrabrigði verða yfir landinu. Við Siggi áttu frekar stirð samskipti í mörg ár og einhver tíman í Þórskaffi er þetta barst í tal okkur á milli á öðru glasi bar ég uppá hann að hafa ætlað að drepa mig. Það var fátt um svör hjá Sigurði sjómanni ! Nú hefur fennt í sporin okkar á milli og við ágætis kunningjar eins og í gamla daga.

Skersó  febrúar 2014  Valdi hún.

 

 

 

 

Önnur  og skemmtilegri saga á byssuárunum og skeði fram í Langadal líka. Þar var fullur bíll að byssubófum og við skál að sjálfsögðu, man ég eftir  Edda í Valhöll og Badda Þórarins. Allt í einu öskrar einhver minkur! minkur! og er bíllinn negldur niður og við stukkum út og hófst æðisgengin skothríð með haglabyssum og rifflum  á kvikindið sem átti enga undankomu auðið  féll þegar í valin á vegkantinum og var Baddi fyrstur á staðin og öskraði komið með hníf til að skera af skottið að sjálfsögðu voru greidd vegleg verðlaun fyrir svona aftökur í þá daga en bíðið við var þetta ekki eitthvað skrítin minkur ? Var nú hafin rannsókn á því sem eftir var að hræinu og niðurstaðan var sláandi einföld. Þetta var örugglega heimiliskötturinn á Geitaskarði  Blessuð sé minning hans. 

 

 

 

Einhver tíman vorum við Eddi í Valhöll á Fordinum hans sem var V8 gata tryllitæki árgerð 1953 að elta Sigurjón Adda sem var á Chervolet árgerð 1955. Þetta var að kveldi til og vorum við út við Ás á moldarveginum sem lá inn á strönd og vorum að sjálfsögðu með tvíhleypta haglabyssu no 12 í bílnum. Datt okkur þá í hug að taka höglin úr skotnum og skjóta á bílinn hjá Grjóna forhlaðinu en ekkert gekk að fá hann til að stoppa og ekkert dúndur heyrðist svo ég ákvað að setja bara alvöru skot í bæði hlaupin og vita hvort ekki kæmi almennilegur hvellur ég sat frammí og Eddi gerði sig líklegan til að aka fram úr sem var ekki hægt og ég miðaði hátt fyrir ofan bílinn hjá Grjóna því ekki var meiningin að drepa nokkurn mann og hleypti af og þvílíkt  dúndur ég hálfrotaðist um leið og ég flaug inn í bílinn því ég var hálfur út um glugga þegar ég skaut og byssan barði mig svo heiftarlega og ég vankaðist. Þegar ég hætti að sjá stjörnur tæmd ég vinstra hlaupið henti byssunni í aftursætið og hét að gera þetta aldrei aftur og hef staðið við það.  Seinna um kvöldið fer Eddi með byssuna inn í Valhöll og kemur út heldur brugðið byssan ónýt þá hafði hlaupið sprungið á tveim stöðum á hægra hlaupi og vantaði stór stykki í það og lánið sem lék við okkur var ekki lítið. Hefði ég skotið úr vinstra hlaupinu og það sprungið inn í bílinn er með öllu óvist að saga af þessu atviki hefði komið fyrir sjónir nokkurs manns. Það sem skeði var fíflaskapur með skotvopn og þekkingarleysi forhlöðin fóru aldrei fram úr hlaupunum og þau voru bæði stífluð því fór sem fór. Og kannski er þessi skothvellur ástæðan fyrir heyrnarskerðingu minni og slæmu eyrnasuði síðari ár. Hver veit. 

Skersó í febrúar 2014

Valdi hún

 

 


27.09.2011 12:47

Sögur af sjó og landi 1965

                     Sögur af sjó og landi 1965


Það var haustið 1965 að ég var ráðin í vinnu hjá Kaupfélagi Skagstrendinga (KAST) við slátrun á sauðfé. Mitt starf var að  þvo kjötskrokkana en það var töluverður starfsframi frá árinu áður en þá vann ég við að hræra í blóðinu. Mér við hlið í kjötþvotti var bekkjabróðir minn Guðmundur Guðmundson vorum við vopnaðir vatnsbyssum  með bursta og vildi stundum koma fyrir að vatnsbunan vildi ekki rata rétta leið einkum ef munnur var opin eða annað líkhamslíti  blasti við.  Í fyrstu voru þetta að sjálfsögðu algjör óviljaverk og beðið afsökunar en fljótlega kom annað í ljós og held ég að fáa daga höfum við Guðmundur komið þurrir heim eftir erfiðan vatnsvinnuslag en fer litlum sögum að kjötþvottinum.Það voru margar ógleymanlegar persónur sem unnu við slátrun þetta haust og sumar unnu bara við þetta og ekkert annað bara eins og fara á vertíð og veiða fisk en þarna voru lömb drepin í akkorði. Sláturhússtjóri var  Jóhannes Hinriksson  í  Ásholti fínn karl.  Yfirdrápari var Ingvi í Valhöll. Í fláningu voru Sigmar Jó, Benni Ólafs, Bjarni Lofts og Haddi á Iðavöllum (stóri fíll).  Í fyrirista voru Skafti Fanndal og Kári á Kárastöðum og man ég ekki betur en Lúlli, Bjössi og Hinni bræður hans væru þarna líka furðulegir fírar og voru oft hafðir að háði og spotti það heitir í dag einelti. Við innmat unnu Soffía í Valhöll, Lilja í Holti, Jóhanna og Axel á Læk og Inga Dísa í Hjallholti. Þarna voru  Ingvar Hreppstjóri, Gústi púff í Blálandi og Hinni hukka þeir söltuðu gærurnar. Ég man ekki hverjir voru í kalda kjötinu en minnir að Geiri á Felli væri þar og Palli í Mýrinni væri í fjárréttinni en langflestir eru farnir yfir móðuna miklu.  Jóhanna á Læk var oft að bjóða mér heim í kaffi og vissi ég ekki hvernig ég átti að taka á þessu helvítis kaffiboði ég taldi mig kunna að drekka brennivín og Spur en um kaffi vissi ég ekki neitt.

Einn daginn er við Jóhanna vorum að lalla heim vestan úr sláturhúsi ákvað ég að slá til og þiggja boðið og var mér boðið inn í eldhús og Jóhanna fíraði vel upp í gömlu Skandía eldavélinni og ketilinn yfir og brátt var kaffið til og Axel komin heim og við öll sest við lítið borð undir glugga sem snéri að Karlskála og kaffið sötrað að gömlum sið.  Það er mér ferskt í minni að talið berst að heysæti undir striga  sem stóð á túninu fyrir utan gluggann og átti sér einskis ills von þá segir Axel og bendir að þetta séu minnst tíu hestar en Jóhanna brást hin versta við og taldi sætið vera miklu minna og um þetta jöguðust þau góða stund en ég sat eins og illa gerður hlutur og hafði engan möguleika á að bera klæði á vopnin sökum vankunnáttu minnar á stærð heysáta í  hestburðum en mér var hugsað til þess eftir að hafa þakkað fyrir mig og hvatt þau heiðurshjón að það væri jagast á fleiri stöðum en Fellsbrautinni. En það má til gamans geta þess að Axel var með skemmtilegri mönnum á Skagaströnd á sínum tíma og sagði af sér frægðarsögur í anda Munkhásen  sem að sjálfsögðu ekki nokkur maður trúði en eru örugglega enn sagðar í góðra vina hópi á Ströndinni.

 Dagarnir voru oft lengi að líða við kjötþvott og kvíið í Kára Kristjáns og auðvitað lærði maður af honum að kvía og hvernig átti að riðlast aftan á kerlingunum en námið nýttist ekki sem skildi allavega ekki verklegi þátturinn því kerlingarnar voru allar svo andskoti gamlar. Einn daginn kom Jóhann á Lækjarbakka og var mikið niðri fyrir og bað Jóhannes Sláturhússtjóra að lána sér menn til að leita að Axel Ásgeirsyni á Felli sem væri týndur en Jóhannes sagðist ekki geta stöðvað slátrun Jóhann varð mjög reiður við og reif í Jóhannes og man ég aldrei eftir að hafa séð geðprýðimanninn Jóhann á Lækjarbakka í öðrum eins ham.  Axel á Felli  fannst látinn seinna um daginn, Þetta var 21 september. það plagaði mig nokkuð að ég var farin að reykja en hafði ekki enn látið pabba sjá það og varð að laumast og einu sinni sem oftar í kaffitíma er ég staddur í suðurdyrum að svipast eftir felustað en þar á fjárréttinni var áfastur kamar og einn vinnufélagi minn kvenkyns stemmdi þangað og sér mig í dyrunum og vissi greinilega hvernig landið lá og kallaði komdu Valdi og lét ég mig hafa það enda ein síkó í boði var nú skellt í lás kamarinn var mjög þröngur og þegar vinkonan var búin að leysa niður um sig og sest stóð ég nánast á milli læra hennar svo kveiktum við í tveim Roy og sugum fast og eftir á  að hyggja djöfull var ég heppin að hún var bara að pissa.  

Einn daginn sagði Guðmundur bekkjabróðir mér að honum hefði verið boðið pláss á m/b Helgu Björgu sem var á síldveiðum fyrir austan land ég varð grænn af öfund en lét á engu bera en ráðlagði Guðmundi eindregið að fara hvergi hann yrði örugglega drepin. Nokkrum dögum síðar hringir síminn heima á Fellsbraut 5 og svara ég og þekki ég strax rödd Þorfinns Bjarnasonar útgerðarmanns sem segir sæll "góði" er Vilhjálmur bróðir þinn heima "góði" mig vantar mann á Helguna ég sagði eins og var að Villi bróðir væri nýráðinn á bát fyrir sunnan en bætti við hikandi en getur þú ekki bara notað mig, smá þögn getur þú komið "góði" komdu á skrifstofuna hjá  mér í fyrramálið "góði" og fáðu peninga þú verður að fara austur á morgun blessaður "góði". Það var bæði tilhlökkun og kvíði sem fóru um huga mér eftir símtalið ég sagði pabba og mömmu að ég væri hættur á sláturvertíð og væri að fara á síldarvertíð austur á firði  þau tjáðu sig lítið um þessa ákvörðun mína enda reynslunni ríkari í að reyna eitthvað að tjónka við mig.  Daginn eftir var ég komin á leið til Akureyrar með Norðurleið þar urðu mér samferða tveir jeppar á fjalli á leið til Egilstaða, Indriði Hjaltason og Högni Jensson áttu þeir að mæta um borð um Bogguna eins og þeir sögðu á Seyðisfirði daginn eftir. (Akraborg E A 50) Það verður aldrei sagt að ég hafi ekki fengið fræðslu á leiðinni um allt það sem viðkom  kvennafari fylliríi sukki og svínaríi á síld og held ég að þetta hefði ekki talist gott trúboð þá né í dag og þar að leiðandi ekki prenthæfur boðskapur hér.  Bakkus var að sjálfsögðu með í för hjá þeim félögum og hvöttu þeir mig óspart til dáða og veit ég ekki hvert þeir ætluðu þegar ég sagðist ekkert vilja með þann drullusokk hafa og ætlaði að mæta edrú um borð í Helguna.  Þeir félagar fullyrtu að þetta merkti bara eitt ég yrði drepin.  Við flugum frá Akureyri til Egilstaða og skildu þar leiðir jeppar tóku rútu  niður á Seyðisfjörð en ég niður á Norðfjörð alsæll með glímuna þar sem ég felldi Bakkus en óhætt er að segja að hann átti eftir að hefna sín grimmilega.

 Þegar niður á Norðfjörð kom um kvöldið var svartaþoka og gekk ekki allt of vel að finna heimili Jóns Karlsonar sem átti söltunarstöðina Mána en þar lagði Helgan upp aflann og átti ég að vera hjá honum þar til Helgan kæmi í höfn. Jón átti líka Lóminn K E 101.  Mér var vel tekið hjá Jóni og ég held móðir hans indæl kona gaf mér að borða og sagði Jón að hann vissi ekki hvenær Helgan kæmi og ég ætti að sofa og borða í Mánabragganum og keyrði  mig þangað síðan hef ég ekki séð þann mann. Klukkan 7 morguninn eftir er ég vakin með látum til vinnu á planinu og vissi ég ekki  hver djöfullinn væri í gangi ég var ekki að ráða mig á neitt helvítis síldarplan. Þannig liðu þrír dagar og ég pæklaði mínar tunnur eins og segir í ljóðinu hans Bubba 10 tíma á dag á fjórða degi er mér sagt að ég ætti að fara út á miðin með vélbátnum Þránni N K 70  sem var 85 tonna eikarbátur ég var ósköp fegin að losna úr dýrasta fæði og húsnæði sem um getur í íslandsögunni og aldrei held ég að Þorfinnur Bjarnason hafi trúað þessu almennilega upp á Jón Karlsson. Ég var hálf umkomulaus um borð í Þránni á leiðinni út í Helguna sem var stödd út á svokallaða Rauðatorgi og hafði gengið eitthvað illa að ná í silfrið undanfarna daga. Því  lá ég í koju sem vélstjórinn á Þránni lánaði mér allt útstímið og smakkaði ekki vott né þurrt einhver kaldadrulla var á móti leið mér ekki allt of vel. Þegar á miðin var komið var Helgan nýbúinn að kasta nótinni og var sendur léttbáturinn eftir mér honum stjórnaði Ingibjörn Hallbertsson annar vélstjóri  fórst honum  það mjög vel úr hendi  hann bauð mig velkominn og sagði mér að reyna að hoppa um borð á réttu róli.

Ég þakkaði áhöfninni á Þránni fyrir mig og komst þurr um borð í léttbátinn sem hoppaði og skoppaði sem aldrei fyrr ekki var neitt það um borð í jullunni sem hefði getað bjargað manni frá því að fara til helvítis ef eitthvað bar útaf flotholt eða bjargbelti sem þykja sjálfsagðir hlutur í dag en við Ingibjörn ákváðum að fara bara styttri leiðina um borð í Helguna.

Mynd: Valdi og Daddi um borð í Helgunni

  Það er óhætt að segja að ljósadýrðin á torginu væri ótrúleg þegar hundruð skipa voru að kasta snurpa draga eða háfa á litlu svæði og þannig var einmitt þegar við lögðum að bakborðssíðunni á Helgunni  ég klöngraðist um borð með pokann minn og fyrstu orðin sem ég heyrði voru þessi ef "við fyllum ekki í þessu kasti þá verður þér sko hent í sjóinn helvítið þitt"  þarna var  Gylfi Sigurðsson að bjóða mig velkominn og sannleikurinn var sá að ég var hreint ekki velkomin um borð því áhöfnin hafði skipt aflahlut tólfta  mannsins á milli sín í nokkurn tíma og fannst það bara allt í lagi en Þorfinnur útgerðamaður réði ferðinni og helvítið mætt. Vélstjórinn Hallgrímur Kristmundsson mótmælti strax þessum hugmyndum og meðferð á mér og má segja að hann gengi mér í föðurstað á þessari ögurstund  og hvort hann bjargaði lífi mínu eða það að við  fylltum dallin í kastinu kemur aldrei í ljós en allavega slapp ég við að bera beinin á Rauðatorginu og Hallgrímur gekk eftir þetta undir nafninu fóstri.  Mynd Hallgrímur fóstri.

Hófst nú skemmtilegur tími með frábærri áhöfn og mokveiði á síld. Fyrsta embættið um borð var að vera nálabrók við það sat ég í hlýjunni í dyrunum á skorsteinshúsinu og rakti nótagarn í nálar ef nótin rifnaði sem vildi koma allt of oft fyrir og stundum hreinlega sprakk hún ef síldartorfan var of stór þurfti þá stundum að rimpa í marga klukkutíma eða fara í land á nótaverstæði. Þetta voru ótrúlega skemmtilegar veiðar þegar komið var á miðin var lónað með astikkið á fullu og maður var fljótur að þekkja hljóðið sem þýddi "klárir"og þá var sko betra að vera það og baujan út og stór belgur sem snurpu vírinn var festur í síðan skottið út og láta fara kippt í sleppikrókinn og tekin hringur og maurildið lýsti upp hafflötinn  einn maður var framá hvalbak með handfærarúllu frá Hellu og girni á henni var fast við  baujuna til að auðvelda að ná henni um borð síðan snurpu vírnum lásað inn á spil og byrjað að snurpa og allt þurfti þetta að gerast hratt og ekkert mátti fara úrskeiðis meðan var verið að ná nótinni saman en þá önduðu menn léttar og spáðu í afla og var byrjað að draga í geilina sem var föst í seinni enda nótarinnar og þegar allt var komið upp í blökk  var byrjað að draga og snurpu lásarnir hengdir á síðuvírinn einn af öðrum það var helvítis púl að stýra vírnum inn á  spil trommurnar með járni sem vatnsrör skrölti utanum en engin fékkst um svoleiðis á þessum tíma. Og allt gerðist þetta í svartamyrkri því að það var hrein dauðasynd að kveikja ljós fyrr en búið var að snurpa og gengu sögur um að menn hefðu verið reknir fyrir það eitt að kveikja sér í sígarettu. En síðustu árin sem síld veiddist við landið var hún að dýpka á sér ár frá ári eins og hún væri að forðast síldarnæturnar og ljósin á skipunum og var því mætt með dýpri nót og ljósleysi því fór sem fór og oft fór illa eina nóttina 22 október sökk Eldey KE 37 rétt hjá okkur á Helgunni og Pétur Sigurðsson RE 331 var nærri sokkin sömu nótt og kannski var kappið of mikið hvað varðaði hleðsluna en vantaði forsjána sem sést best á gömlum myndum. Það var fátt skemmtilegra en að leggjast að bryggju með dauðhlaðið skip af síld og landa í bræðslu þetta var töluverður mokstur úr stíum  lempa að löndunar krana og því þótti meira spennandi að landa í saltið því þá gafst smá  tími að kíkja á stelpurnar og var ekki verra að vera málkunnugur einhverri blómarós fyrir næsta landlegu ball

 Ég var strax tekin inn í þann hóp áhafnar sem hugsaði mikið um konur og vín og fóru með bæn á kvöldin um landlegu í staðin fyrir faðirvorið og ef það dugði ekki var stundum klórað í frammastrið og sungið "Ólafur reið með björgum fram hvessi hann á norðaustan" og trúðu sumir að þetta klikkaði  aldrei ég fór fljótlega að tuldra með. Annað sem alls ekki mátti klikka var að 12 flösku kassi af sjéniver væru á hverju pósthúsi frá Raufarhöfn í vestri að Djúpavogi í suðri þó við lönduðum oftast á Norðfirði þetta skapaði öryggiskennd og allt á nafni þeirra ráðsettu um borð og lögráða. Einu sinni vorum við með illa rifna nót inn á Norðfirði og áhöfnin  að hjálpa viðgerðarmönnunum að taka nótina upp á bryggju en eitthvað fór úrskeiðis með Bakkus því einn félaginn lenti undir nótinni og varð að spóla til baka og bera kappann á bak við tunnustafla og síðan um borð en nótamennirnir hótuðu að hætta ef við kæmum nærri nótinni. Þegar óskalandlegu spáin kom loksins var þegar hafin undirbúningur og drullugallinn settur í spotta og hengdur aftaní og kjölfarið látið um restina en þá var líka betra að fylgjast með þegar í land var komið og Daddi fór að bakka þvottavélinni annars héldu menn kannski bara spottanum svo þurfti að viðra jakkafötin og ef vel átti að vera hefði þurft mánuð til að slá á mestu slagvatnsfýluna sem var okkur lifandi að drepa og við vorum búnir að taka eftir því að ef við skruppum í bíó að fólk forðaðist að sitja nærri okkur var því vel rúmt um okkur en þetta gekk ekki á balli og voru menn vel vopnaðir af allrahanda ilmvötnum og rakspíra ásamt adrett og brilli í hárið allt  í barátunni við kvenna slagvatnsfæluna og þetta gekk svo langt að menn voru farnir að kvísla að dömu í loka dans í staðin fyrir ég elska þig!
Mynd:Jói Biggi Flankur Biggi

 Viltu geyma fötin mín? það þótti því stórsigur í kvennamálum að koma jakkafötum í geymslu á þessum tíma en aðrir töpuðu sínum ef framboð var mikið.

 Þegar á dansleik var komið voru menn yfirleitt komnir í rétta gírinn og búnir að slátra nokkrum sjennabrúsum  og fóru flestir að kíkja eftir lóðningu og dansa  sumir vildu bara drekka syngja  hlæja eða gráta svolítið og kannski dóu svo bara fram á borðið aðrir  vildu bara gefa einhverjum á kjaftinn og vildi  þá oft fjölga í hópnum við slíka aðgerð og kom fyrir að menn lentu í grjótinu með tilheyrandi móral  og marbletti daginn eftir. Gunnar Pálmason bjargaði okkur oft þegar við rifum of mikinn kjaft stóð bara upp og sagði með sinni þrumuraust látið strákana mína í friði og það dugði. Eina nótt eftir ball vorum við Assi  á rangli eitthvað slompaðir að vanda og hafði veiðin brugðist á ballinu og kannski var það helvítis slagvatnsfýlan alla vega ákváðum við að nú skildi gert útafvið fýluna í eitt skipti fyrir öll og klifruðum yfir grindverkið á sundlauginni og stungum okkur til sunds í fullum herklæðum en ekki tókst okkur að klára 200 metrana sem var mjög hvatt til um þessar mundir því laganna verðir tvö stykki stóðu skyndilega á laugarbakkanum og sýndust ekki vera mjög kátir en við vorum hinsvegar mjög  kátir og töldum hreinsun á fötunum hvergi lokið og gekk svona lengi vel og löggurnar urðu reiðari og reiðari og við kátari og kátari það var alveg  ljóst að þeirra föt voru nýhreinsuð og þeir ekki til í 200 metrana en kátínan hvarf þegar við loksins töldum fullhreinsað og stigum á land.              Mynd: Assi og Valdi

Eitthvað þurfti að berja okkur og skella okkur á bakkann og handjárn aftur fyrir bak og beint í grjótið rennandi blautir og ískaldir klefar og mátti þakka fyrir að við vorum ekki drepnir þarna úr kulda ég forkelaðist það illa að ég var í margar vikur að ná mér en saga jakkafatanna okkar varð öll en lyktin hélt sínu.  

Einhverju sinni frétti ég að Finnar sem lágu af sér brælu á Norðfirði vantaði  Vodka og borguð með forláta úrum ég átti eina bokku í öxlum og fyllti með vatni og 300 krónur átti ég í peningum og með þetta að vopni lallaði ég um borð í Finnska dallin sem nærst lá bryggju og niður í lúkarinn og sýndi bokkuna og viðbrögðin voru harkaleg þrír stukku að mér og vildu versla og greinilega framboð ekki í samræmi við eftirspurn og lá einn strax rotaður rétt hjá mér og fljótlega flúði annar að hólmi ég varð svo hræddur og ætlaði að fara að hlaupa upp stigann þegar sá sem harðast gekk fram var komin að mér og vildi greinilega bokkuna ég var mállaus af hræðslu og vildi bara komast upp úr dallinum áður en ég yrði drepinn og tilbúin að láta bokkuna til að halda lífi og þar sem engin hnífur var á lofti eins og Finnar eru frægir fyrir og hékk í hverri koju þarna þá benti ég hikandi á úrið á hendi mansins og tók hann það strax af sér og rétti mér og ég rétti bokku og 300 krónurnar og ég skildi nóg til að sjá að honum fannst krónurnar of fáar en bokkan hélt og aldrei á ævinni  hef ég verið jafn fljótur upp einn lúkarsstiga og upp á bryggju og hljóp alla leið um borð í Helguna og úrið gekk í fjölda ára. Veiðarnar gengu vel þetta haust bæði á sjó og landi og þegar við komum heim á Skagaströnd í desember átti ég sand af seðlum og gaf pabba fyrir nýjum tönnum sem hann bráðvantaði ég get því sagt eins og Bjarni minn Helgason í Holti sagði um að Lilja kona hans væri með lúðutennur, pabbi var með síldartennur.

Í janúar 1966 var farið á línuveiðar á Helgunni frá Skagaströnd og fór ég í beitingu og stóð beituskúrinn vestan við Vélaverkstæði KxÞ  var ég orðin nokkuð vanur því að beita en  aldrei tekið fulla setningu 8 bjóð og fleiri voru að byrja Eðvarð Ingvason, Sævar Hallgrímsson, Bjarni Loftsson var landformaður. Hartmann Jóhannesson og Jóhann Pétursson allir hundvanir. Það var oft mikil keppni á milli okkar yngri og óreyndari í skúrnum en við þá reyndari þýddi lítið að eiga nema eitt og eitt bjóð en úthaldið skorti. það var byrjað að beita milli 3 og 4 á nóttinni og var oft helvíti kalt meðan ofninn var að hitna sem stóð í miðjum skúrnum og svo var átan í síldinni okkur lifandi að drepa og vorum við svo slæmir fyrst á nóttinni ef mikið var róið að við gátum varla náð Lilla út til að míga og ég tala ekki um ef einhver  þurfti að fara út fyrir vegg í öllum veðrun að gera meira  þetta hefði flokkast sem heilbrigðis vandamál  í dag.  Þarna sýndi sig best að kapp er alltaf best með forsjá og höfðum við sem yngri vorum fengið pillur frá borði um hvort önglabeygjan væri biluð og ábótin búinn og auðvitað kannaðist engin neitt við neitt svo gerist það í einu kappinu á milli okkar tveggja félaga  allt í einu  kallar einhver í Bjarna og heimtar að hann komi og skoði ofaní balann hjá mótherja mínum og Bjarni geispaði og kom á staðinn og byrjar að rekja upp úr balanum og þegar hann var búinn að telja 12 króka sem vantaði á gekk hann burtu og var svo brugðið að hann gleymdi að geispa var nú heimtað að rakið yrði eins uppúr mínum bala og slapp ég með skrekkinn í þetta sinn.  

Eitt var það vandamál sem við stríddum við þennan vetur og það var Kvennaskólinn á Blönduósi og töldum við okkur ómissandi á þeim stað og skipti  engu máli hvernig stóð á vinnu við bátinn og töldum við okkur eiga góða að þá Indriða Hjalta og Snorra Gísla sem voru atvinnulausir og hlupu í skarðið fyrir okkur Edda að taka á móti bátnum á laugardagskvöldum og beita eitt kvöldbjóð þegar illa stóð á. Einu sinni en oftar leitum við til þeirra í algjörri neyð ball um kvöldið og skólapíur í útivistaleyfi en svarið stóð ekki á sér NEI !  nú voru góð ráð dýr og ákváðum við að skrópa að taka móti bátnum og beita kvöldbjóðin daginn eftir og mættum í skúrinn eftir hádegi  eitthvað þvældir eftir næturvinnuna og viti menn fyrsta sem við sjáum eru bjargvættirnir okkar Indriði og Snorri að beita í okkar stað og Bjarni tilkynti okkur geispandi að Daddi skipstjóri hefði heimtað að við yrðum reknir. Ég hitti Dadda skömmu síðar og hann sagði jéaaá Bjarni heimtaði að þið yrðuð reknir þannig hljóðaði það heilaga orð og í ofan á allt vorum við hýrudregnir.

  

Viku  seinna hringdi Daddi í mig og réði mig á Helguna vetrarvertíðina í Grindavík 1966. Þá var ég og Ómar vinur minn búnir að ráða okkur á Gnýfara SH. En mér leist betur á gömlu félagana.

Áhöfnin á M/b Helgu Björg HU-7 haustið  1965.

Skipstjóri: Jón Ívarsson

1 Stýrimaður: Gunnar Pálmason 

1  Vélstjóri: Hallgrímur Kristmundsson

2  Vélstjóri: Ingibjörn Hallbertsson

 Matsveinn: Jónas Skaftason

 Háseti: Gylfi Sigurðsson

 Háseti: Bjarni Loftson

 Háseti: Byrgir Júlíuson

 Háseti: Jóhann Ingibjörnsson

 Háseti: Árni Sigurðsson

 Háseti: Örn Berg Guðmundsson

 Háseti: Þorvaldur Skaftason

Helga Björg HU 7 (180) var smíðuð á Akranesi 1962 úr eik 139 brl með 525 ha MWM díesel vél. Hét í upphafi Sigrún Ak 71 síðan Helga Björg HU 7 Hólmsberg KE 16 Þórður Sigurðsson KE 16 Framfari SH 42 Jón Halldórsson RE 2 Þorbjörn II GK 541. Ég held að hann hafi farið á bálið á Flateyri undir því nafni eftir 1990. Eitt að fáum eikarskipum sem var smíðað með perustefni.

 Skersó 2011  VALDI HÚN    

 Þessi skrif Þóttu ekki hæf til birtingar í Húnavökuriti  

19.02.2011 20:00

Sögur af sjó og landiJón Jósepsson og Jósep um borð í Auði

M/b Auður djúpúðga ferst með tveim mönnum

 


Þann 24 mars árið 1961 lagði vélbáturinn Auður djúpúðga HU 12 á stað frá Skagaströnd og var ferðinni heitið til Akranes um borð bátnum voru tveir menn Karl Sigurðarson skipstjóri 47 ára Akranesi sem nýbúin var að kaupa bátinn af Kambakotsbræðrum og Bernódus Guðjónsson háseti 56 ára Akranesi. Þetta var önnur tilraun þeirra til að sækja bátinn í fyrra skiptið  bilaði eitthvað um borð. Veður var sæmilegt  þegar Auður fór frá Skagaströnd um morguninn suðvestan gola og sjólítið en þegar leið á daginn gekk í norðan og norðaustan hvassviðri á skammri stundu og herti veðrið stöðugt eftir því sem á daginn leið með stórsjó og snjókomu. Um klukka fjögur heyrðist síðast í Auði báturinn var þá á siglingu á stefnu fyrir Horn og sagði karl allt vera í lagi um borð. Ernst Berndsen á Karlskála sem var við talstöðina í landi var ekki rótt og leist ekki á að 10 tonna pungur og menn ókunnir bæði bát og sjóleiðinni reyndi siglingu fyrir Horn eins og veðrið var orðið og hvatti hann þá eindregið að snúa við og leita hafnar en meira gat hann ekki gert. Sigurður Árnason skipstjóri á M/b Sporði AK 10 hvatti karl líka til að snúa við því farið var að hreifa sjó inn í flóa þar var báturinn á netum. Þegar ekkert  heyrðist meira í bátnum þrátt fyrir ýtarleg köll voru gerðar ráðstafanir til leitar og haft samband við skip og báta. Ekki reyndist möguleg leit daginn eftir að bátnum vegna stórviðris Þá barst frétt að kona á Ísafirði taldi sig hafa heyrt seinni part dags 24 mars í útvarpi sínu á bátabylgju kall frá bátnum þar sem sagt var að eitthvað væri að en þetta var ekki staðfest.  26 mars gafst veður til  leitar bæði úr lofti og sjó en ekkert fannst var leit hætt og báturinn talin af. Aðfaranótt 27.mars taldi fólk á Skagaströnd sig sjá neyðaljós í vestri og var leit beint á hugsanlegan stað en ekkert fannst og var talið hugsanlegt að vitinn á Gjögri hefði villt sín. Þann 10 maí fannst flakið af Auði djúpúðgu í svokölluðum Smiðjuvíkurvogi en m/b Sædís frá Bolungavík var að huga að reka þegar þeir fundu flakið var báturinn botnlaus og vélarlaus en gúmbjörgunarbáturinn var óhreyfður á sínum stað eins fundust segl og matarílát. Líklegt þótti að Auður hefði strandað úti fyrir Smiðjuvík og sokkið en þar fyrir utan eru miklar grynningar og síðar borist upp í fjöru við stórbrim vélar og botnlaus M/b Auður djúpúðga var smíðuð í Hafnarfirði 1955 úr eik og furu 10 brl. með 44 ha. Kelvin díesel vél báturinn var seldur 29 maí 1958 Sigurði Árnasyni, Jóni Stefánssyni, Stefáni Stefánssyni, og Jósef Stefánssyni, Skagaströnd Báturinn hafði ekki verið umskráður þegar hann fórst en  hann var látin í skiptum fyrir stærri bát sem hét


Sporður AK 10 á netaveiðum árið 1961


Sporður AK 10 smíðaður á Ísafirði 1943 og man ég að Ensi á Karlskála sigldi honum til Skagastrandar frá Akranesi ásamt fleirum. Engin gögn finnast um Sporð AK 10 því báturinn  hét Andvari GK 174 samkvæmt skipaskrá og seldur 6 mars 1961 þeim Kambakotsbræðrum og hlaut nafnið Vísir HU 10. Auður djúpúðga ferst 18 dögum eftir undritun kaupsamnings sem aldrei var þinglýst og er eini báturinn á Íslandi sem hefur borið

einkennistafina DA 1 

 


Jósep, Sigurður, Bernódus og Jón


Rifjað upp í febrúar 2011 á Skersó

Valdi hún

              

 

 

15.02.2011 18:19

Sögur af sjó og landiÞessi bátur er eins og Skíði HU 8 og hét Hafdís HU 4

M/B Skíði HU-8 ferst með tveim mönnum.

Að kvöldi 21 nóvember 1961 voru Skagastrandarbátarnir  Máni og Húni  að leggja í línuróður og þar sem veðurspá var ótrygg réru þeir frekar stutt eða vestur í miðflóa og þar var línan lögð. Minni bátarnir Svanur HU 4  Vísir HU 10 Skíði HU 8  og Guðrún HU 2 réru um nóttina Svanur og Skíði norður á skallarif en hinir styttra. Þegar kom fram á morguninn fór veður mjög að versna með miklum sjógangi og þegar leið á daginn höfðu allir bátar skilað sér til hafnar nema Skíði. Talstöðvar  samband var haft við Skíða um hádegi og sögðust  þeir bræður Sveinn og Hjörtur eiga eftir að draga í  þrjá bala höfðu slitið og væru að leita og ætluðu að hafa samband við land klukkan þrjú þetta var það síðasta sem til þeirra heyrðist. Mjög slæmt sjólag var komið við Skallan þegar Svanur sem var 15 tonn lagði á stað til lands á undan Skíða sem var 8 tonn og dældu þeir bræður Baldur og Júlli út olíu vegna slæms sjólags og til að hlífa sér og  bátnum sem var komin til aldurs. Voru þegar í stað gerðar ráðstafanir til leitar að Skíða og haft samband við varðskipið Óðinn sem var statt á Húnaflóa og leitaði það alla nóttina einnig leituðu Húni og Máni en allt kom fyrir ekki. Veður fór stöðugt versnandi og aðfaranótt 23 nóvember var komið ofsaveður og aðstæður til leitar mjög slæmar  Óðinn hélt áfram leit alla nóttina frá Skallarifi og inn undir Vatnsnes en ekkert fannst. Að kvöldi 24 nóvember taldi fólk á Blönduósi sig sjá neyðarblys út á flóa og fór Óðin á hugsanlegan stað og þrautleitaði og Húni líka en ekkert fannst . 24 nóvember voru sendir leitarflokkar á Vatnsnes og gengu fjörur þar fannst brak úr Skíða skammt frá bænum Gnýstöðum línubelgir merktir bátnum björgunarfleki úr korki og fleira brak einnig fannst línubauja merkt bátnum undan bænum Sauðá  á Vatnsnesi öll leit var mjög erfið þennan dag vegna ofsaveðurs og lentu leitarmenn í hrakningum en stórviðri gekk yfir landið næstu daga með tilheyrandi skemmdum við sjávarsíðuna. Skíði HU-8 var smíðaður á Akureyri 1956 úr eik og furu 8 brl með 54 ha Lister diesel  keyptur til Skagastrandar 12 júlí 1958 af bræðrunum  Kristjáni A Hjartarsyni og Sveini G Hjartarsyni síðar varð meðeigandi  þriðji bróðirinn Hjörtur A Hjartarson allir kenndir við Vík.  Kristján sá um beitningu í landi þegar báturinn fórst. Það er mikið áfall fyrir lítið sjávarpláss eins og Skagaströnd þegar sjóslys verða og strax um kvöldið 22 nóvember 1961 var flestum ljóst að Skíði hefði farist og margir hafa átt andvökunótt og morguninn eftir var iðjulaus stór hríð og ætlaði pabbi að mæta í vinnu eins og venjulega og fer út en kemur inn strax aftur og er mjög brugðið og segir fátt en mamma gengur á hann og þá segist hann hafa mætt  Víkurbræðrum þegar hann kom út á Fellsbrautina og þeir voru rennandi blautir og var þetta ekki í fyrsta skiptið sem pabbi taldi sig sjá það sem var öðrum hulið. Varð ég mjög hræddur og fór lítið út eftir að þetta stórviðri gekk niður hræddur við að mæta þeim bræðrum einhverstaðar. Það var enginn björgunarbátur um borð í Skíða heldur lítill korkfleki með neti í botni og var ekki auðlosaður og sagt var að nýr gúmmíbjörgunarbátur hafi verið komin á staðin og verið geymdur uppí Kaupfélagsskemmu. Hvort það hefði einhverju breytt verður aldrei svarað. Þessi atburður kemur alltaf upp í huga mér þegar ég heyri vinsælt dægurlag frá þessum tíma með Ricky Nelson ! Hello Mary Lou. Því ég sökkti mér niður í að hlusta á gömlu gufuna til að reyna gleyma stað og stund núna í ár eru liðin 50 ár frá þessum sorgardegi. Hjörtur A. Hjartarson var 35 ára að aldri Sveinn G.Hjartarson var 40 ára þeir voru báðir ókvæntir og barnlausir og þeir bjuggu í foreldrahúsum í Vík.  Á þessum árum voru þrír samskonar bátar á Skagaströnd. M/b Skíði HU 8  1956 Hafdís HU 4  1954 og Flugaldan ST 121.  1956.


Eigendur Skíða: Kristján, Hjörtur og Sveinn

Rifjað upp í febrúar 2011 á Skersó.

Valdi hún.

 
25.12.2010 16:41

Ótitlað

                                   
               Sögur af sjó og landi !

                     

                  Keli og Vinur.

Það er margt skrýtið í henni veröld ég keypti litla bók á markaði í Hafnarfirði á 100 krónur sem heitir 100 Hafnfirðingar og þegar ég opna hana fyrir miðju blasti við mynd af gömlum Skagstrendingi sem hét Þorkell Magnússon og átti heima í Goðhól (Hólabraut 10 í dag) og veit ég ekki betur en Keli eins og hann var alltaf kallaður hafi byggt það hús og fjárhús og hlöðu við hliðina  fyrir nokkrar kindur því Keli var mikill dýravinur og talaði við dýr eins og fólk. Á þessum tíma mátti segja að kindur og kýr væru í öðru hvoru húsi á Skagaströnd  og ótrúlega löng lestin þegar maður var að reka allar kýrnar á beit upp fyrir kerlingaholt. En Keli var útvegsbóndi líka og átti sína trillu hún var hvít á litinn tæpt tonn að stærð en ekki man ég hvort hún hét eitthvað og karlinn sótti sjóinn og undi glaður við sitt seinni árin vann hann í frystihúsinu hjá K.A.S.T. Ég bíst við að Keli hefði verði talin kvistur í lífstrénu í dag kvæntist ekki, hafði sérstakan talanda, blandaði lítið geði við aðra nema svartan hund sem hann eignaðist á síðustu æviárum sínum og nefndi Vin og er óhætt að segja að þeir urðu sko vinir og var oft gaman að hlusta á þeirra spjall sérstaklega ef Keli var rakur vildi þá stundum skerast í odda og grunar mig að Vinur hafi ekki verið allt of hrifin þegar sá gamli datt í það því þá gat hann verið ansi skömmóttur. Einu sinni var Keli að koma upp Fellsbrautina og vel rakur og fór eitthvað að munnhöggvast við Villa bróðir sem stóð innan við girðinguna á Fellsbraut 5 Hallgrímur Kristmundsson mætti Kela stuttu seinna og hafði heyrt að hann og Villi voru eitthvað að rífast og spurði hvað gekk á þá segir Keli o ég fleygði onum sko inn fyrir  girðinguna þetta heyrðum við og hlógum mikið af. Keli var lítill maður vexti og grannur og orðin lotin í herðum og bar þess greinilega merki að ekki hafði  verið mulið undir hann síðustu  æviárin dvaldi hann í góðu yfirlæti hjá Oddu frænku minni í Sunnuhlíð. Hann hefur átt heima í Hafnarfirði áður en hann kom á ströndina það kemur fram í umræddri bók og stundaði sjóinn eins og kemur fram í vísunni um hann undir myndinni en því miður er ekki farið rétt með fæðingadag og dánardag samkvæmt Íslendingabók.

Allskyns fleytum á fékk túr

oftast lund með glaða

Kneyfa flöskum kunni úr

Keli Þórustaða

Þorkell Magnússon var fæddur 27 júní 1894

Dáinn 30 ágúst 1968 jarðsungin í Spákonufellskirkjugarði og man ég ekki betur en gröfin væri tekin við girðingamörkin svo hægt væri að jarða Vin við fætur hans utan garðs og þar hvíla þeir nú vinirnir öllum gleymdir en eru mér ógleymanlegir. Og svona til gamans þá eru við Keli skyldir gegnum tvíbura sem voru fæddir 1615 .                                               
VALDI hún 25 desember 2010 á Skersó

19.10.2010 15:54

Sögur af sjó og landi

Valdi og Ommi
Það er janúar árið 1968 enga vinnu að hafa  á Skagaströndinni. Ég og vinur minn og æskufélagi Ómar Jakobsson vorum búnir að ráða okkur á loðnubát frá Sandgerði. Guðbjörgu GK 220 smíðuð í Svíþjóð 1963  206 brt. 650 hest Kromhout. Nú skildi gera góða vertíð og græða á loðnunni eins og  Raggi Bjarna söng um hér um árið. Við mættum um borð í Guðbjörgina í Njarðvíkurhöfn fyrstu dagana í janúar þar tók Óli skipstjóri og útgerðarmaður á móti okkur. Bauð hann okkur velkomna og sýndi okkur skipið og leist okkur bara vel á. Bauð Óli okkur að búa um borð og sýndi ofaní stóra frystikistu fulla af mat sem við gætum notað við mundum líta eftir bátnum í staðinn. En tíðin var búin að vera óstöðug og taldi Óli að svo yrði áfram sem líka gekk eftir og fórum við tvisvar eða þrisvar á veiðar í janúar þvældumst austur að Hornafirði fórum þar í bíó og til Vestmannaeyja þar sáum við Gölla Valdason sem svo margir hafa ort um. Ekki var nú veiðinni fyrir að fara nokkrir drullu slattar eins og sagt er á sjóaramáli og ótíð í ofanálag.  Það var því oft lengi að líða tíminn hjá okkur félögunum í Njarðvíkinni en mjög góðar hljómflutnings tæki voru um borð með segulbandi og kallkerfi um allt skip hlustuðum við aðallega á Kanann og höfðum hátt ekki síst ef veikara kynið leit um borð og eitthvað var á glasi þá var kátt í Guggunni og við félagarnir búnir að gleyma  öllum fyrri partítjónum svo var farið í bíó og böll um helgar í Ungó og Stapann en í framhaldi af því fór að bera á peningaskorti því ílla gekk að fá trygginguna hjá útgerðinni. Einn skipsfélagi okkar átti 8 sílendra Ford Farelane 500 árgerð 1957 rauður og hvítur sannkölluð glæsikerra.  Eina helgina bauð hann okkur Omma á rúntinn var hann búin að fá vin sinn til að keyra svo hann gæti dottið í það með okkur var farið víða um Suðurnesin. Um kvöldið vorum við í Keflavík allir vel rakir allt í einu kemur bíll upp að okkur og bíður upp á spyrnu  ekki man ég tegundina  en þetta var hálfgerð lús miðað við Fordinn. Tók bílstjórinn  boðinu með samþykki eigenda var nú ekið inn að Nesti og bílunum stillt upp og sílendrar þandir og ætt af stað söng og hvein í öllu lausamöl þeyttist um allt. Það var strax ljóst að við höfðum ekkert í andstæðinginn að segja þó við værum fljótlega komnir á seinna hundraðið þegar við komum að Herðubreið og Skjaldbreið þar sem malbikið byrjaði var ökumanni greinilega hætt að lítast á ferðina og steig á bremsur en glæra hálka var og byrjaði nú Fordin að snúast í hringi á götunni erfitt er að gera sér grein fyrir því  hve marga en við Ommi reyndum að skorða okkur eins og við gátum í  aftursætinu  og veitti ekki af því að lendingin á ljósastaur var helvíti hörð. Hálf rotuðumst við báðir en þegar við fórum að ranka við okkur sáum við staurinn sem hafði lent á stafnum á milli fram og aftur hurðar hægra megin og stóð langt inní bílinn hver veit nema það hafi bjargað lífi okkar hvar staurinn lenti ?.       

 Við vorum allir útbíaðir í glerbrotum og eitthvað skornir. Bílstjórinn grét en virtist að öðru leiti í lagi.  Eigandinn í algjöru sjokki en virtist nánast  ómeiddur okkur félögunum leist ekki á að bíða eftir lögreglu og sjúkrabíl og studdum hvern annan og létum okkur hverfa út í myrkrið og síðan heim til systur minnar sem bjó á Faxabrautinni en hún var alvön að hjúkra okkur og plástra eftir böllin ef mikið gekk á.  Fengum við að gista um nóttina enda aumir en óbrotnir daginn eftir þegar við ætluðum um borð var Guðbjörgin farinn úr Njarðvíkurhöfn já "nú var heima"  og leist okkur félögunum ekki á blikuna en fórum á símstöðina og hringdum í Magnús útgerðarmann sagði hann að það hafi ekki náðst í okkur til að láta vita um brottför en við ættum að fljúga til Hornafjarðar.
Guðbjörg GK 220
Nú var Ómari vini mínum nóg boðið og sagðist ekki koma meir um borð í þessa drullukollu og skildu nú leiðir.  Ég fór með flugi til Hornafjarðar og um borð í Gugguna og út til veiða lönduðum á Norðfirði og var þar búið að panta tannlækni til að draga úr mér tennur sem höfðu kvalið mig mikið og  beint þaðan niður í lest að landa og ekki var loftið þar allt of hollt og gott því það leið yfir einn skipverja vegna ólofts. Þegar leið  að páskum var ákveðið að stoppa fram yfir þá og lágum við þá í Sandgerði.  Þá ákváðum ég og Raggi Gunnars skipsfélagi að bregða okkur til Keflavíkur og lyfta  okkur svolítið  upp enn fjárskortur skyggði á eins og áður en eftir nokkur glös um borð ákváðum við að fara heim til Magnúsar útgerðarmanns og segja honum til syndanna.

Barið var hressilega á dyr Magnúsar og frúin kom til dyra og bauð okkur inn og vorum við  Raggi ljúfir sem lömb við hana enda mikil sóma kona.
Valdi með 2 stóra Þorska
Þegar Magnús birtist breytist ljúfmennskan okkar  því það fyrsta sem hann sagði var að engin peningur væri til og við værum dónar að ryðjast svona heim til hans. Hófum við nú smá fyrirlestur um það  hvernig hann kæmi fram við okkur og var að nógu að taka og er einfaldlega ekki allt af því prenthæft. En fyrirlesturinn endaði á því að við sögðumst bera hann út á eyrunum ef hann borgaði ekki strax og slógum í borðið.

Ommi,Valdi og ljúflingurinn Raggi í Stapanum 1968.
Allir með Camel.
Magnús fölnaði verulega við lesturinn og sótti heftið og borgaði upp í skuldina með það fórum við og kölluðum útgerðarmanninn eftir þetta Magga mel. Við Raggi eyddum laugardeginum fyrir páska í Keflavík  og kviðum hálfpartinn fyrir kvöldinu ekkert um að vera og ekkert mátti gera nema súpa á bokkunni. Lögreglan stoppaði okkur á Hafnargötunni um kvöldið og spurðu okkur á hvaða ferðalagi við værum við sögðum eins og var bíða eftir að tíminn liði og ætluðum við bara rölta svolítið og síðan til Sandgerðis um borð í Gugguna. Nokkru seinna kom löggan aftur og  bauðst nú til að skjóta okkur til Sandgerðis þótti okkur þetta gott boð og ekki skyggði á að við máttum hafa flöskuna hjá okkur í aftursætinu. Var nú haft samband við Sandgerðislögreglu og hún beðin að koma á móti okkur upp á Miðnesheiði og þar haft bílaskipti úr fólksbíl í Svörtu Maríu  þegar við höfðum þakkað fyrir okkur. Í þessum  bíl var þil á milli þeirra sem  sátu frammí með gleri var því lítið um samræður sem nóg var að í hinum bílnum ég er ekki frá því að ég hafi eitthvað dottað en vakna við það að Raggi biður þá frammí að stoppa því hann vilji ekki að lögreglan  keyrði  okkur að skipshlið þetta var við hafnarvigtina. En engu var svarað þó Raggi kallaði aftur og aftur og erum við komnir fram á efst á skipagarðinum þegar ég veit ekki fyrr en Raggi lemur flöskunni í glerið á milli okkar og þeirra sem frammí voru og hvoru tveggja brotnaði  í spað. Og nú stoppaði Svarta María heldur hastarlega og augnabliki síðar var afturhurðunum svift upp og um leið stökk Raggi á löggurnar og duttu þeir allir í drulluna þó ég botnaði ekkert í hvað hafi komið fyrir Ragga vin minn sem alltaf var ljúfur sem lamb þá var hvorki staður né stund til að velta því fyrir sér og lét ég mig vaða í þvöguna og var nú maður á mann þarna veltust við í drullunni við bryggju kantinn og hvorugur hafði betur sjálfsagt hefðum við lent í sjónum ef kanturinn hefði ekki verið. En endirinn  var sá að við vorum báðir settir í handjárn og síðan hent inní Svörtu Maríu lentum við báðir með andlitið í gólfinu svo á sá. Var nú ekið á  stað  til Keflavíkur og viti menn upp á Miðnesheiði erum við færðir yfir í aðra Svarta Maríu og hent út inn í hina ekki lagaðist útlit okkar við þessa meðferð en þarna voru þá komnir vinir okkar frá því fyrr um kvöldið og töldu að við launuðum illa greiðan. Við reyndum að segja þeim hvað hefði skeð en okkur var sagt að steinhalda kjafti og við færum beint í steininn, það gekk eftir og enn og aftur var okkur hent út úr bílnum í  götuna  og að endingu sparkað inn í fangaklefann

Raggi, Ommi og Valdi með fullan bát af fiski.

þarna lágum við vinirnir í blóði okkar á golfinu bláir og marðir og páskahátíðin að ganga í garð. Eitthvað sváfum við lítið  um nóttina og heldur var lágt  á okkur risið daginn  eftir þegar við vorum reknir út úr steininum fötin ónýt við skelþunnir og með móral í þokkabót. þannig á okkur komnir stauluðumst við heim til Önnu systur sem bar smyrsl og plástur á sárin  eins og oft áður. En nú kom senn að síðustu ferðinni  minni á Guðbjörgu GK 220  og næstum  þeirri síðustu í lífinu.

Við vorum austur við Ingólfshöfða að háfa loðnu úr ágætis kasti  vorum að verða búnir að fylla lestina  þegar Guggan fór að halla í stjórnborða  svo mikið að ég og sá sem var á móti mér á hábandinu stóðum upp í mitti í sjó Óli skipstjóri bað okkur að vera rólega því Gísli vélstjóri væri byrjaður að dæla olíu  á milli tanka fór nú Guggan hægt og rólega að réttast við og var nú fyllt í lestina og lúgur skálkaðar og sett á dekkið það sem var eftir að loðnu. Var byrjað að kalda þegar við lögðum á stað fyrir Reykjanes og var þá ekki laust við að sú gamla hallaði aðeins í bak. Ekki man ég hvernig stóð á því að við vorum bara tveir sofandi frammí þegar við komum í Reykjanesröstina. Ég og sextán ára strákur úr Sandgerði  vöknum við það að við fljúgum fram úr kojunum og heyrum að slegið  er af vél við bröltum upp undir  hvalbak en þar var bara ein hurð út á stjórnborða og Guggan lá einmitt  á stjórn sem aldrei fyrr reyndum við að losa tessanna en hurðin haggaðist ekki en sjór fossaði  inn svo við urðum að tessa hana aftur við vorum mjög hræddir við heyrðum djöflaganginn í veðrinu og fundum hvernig sjórinn braut á hvalbaknum og allt virtist á leið á botninn og ekkert hægt að gera. Þar sem ég var árinu  eldri verð ég að reyna að hughreysta skipsfélaga  minn en okkur leið ömurlega og ekki síst vegna þess að ekkert heyrðist í kallkerfinu aftan úr brú okkur til sáluhjálpar. Þannig leið nóttin langa þar til við komum inn fyrir Garðskaga þá gátum við opnað hvalbakshurðina en sjór flaut slétt við hurðarkarm og lúgu og næsta víst að illa hefði farið ef lúgan hefði ekki verið vel skálkuð við hefðum reynt að brjótast út undan hvalbaknum. Það var mjög þungt í mér þegar ég kom aftur í brú og spurði ég Óla skipstjóra hvers vegna hann hefði ekki haft samband við okkur í kallkerfinu var fátt um svör.

Ommi og Valdi á leið til í siglingu með Arnari.

Hreytti ég þá út úr  mér þú hefðir kannski  getað hvatt okkur ! Fór svo niður í borðsal og fékk mér kaffi og í pípu til að róa taugarnar.  Við komuna til Njarðvíkur var maður frá siglingarstofnun á garðinum og var haffærið tekið af Guggunni á staðnum. Það er fljót að fljúga fiskisagan enda var sent út neyðarkall um nóttina. Var gerð krafa um að svokallaðar kafbátalúgur væru settar í staðin fyrir boxalok í síðum áður en nýtt haffæriyrði gefið út.  Var ekki útlit fyrir meiri loðnu veiði og okkur sagt að það yrði farið á net eftir lagfæringar.  Ég átti mjög erfitt með svefn eftir þetta áfall og gat ekki hugsað mér að sofa um borð í Guggunni  í höfn hvað þá veiðum og fann nú fyrir sjóhræðslu sem var óþekkt  áður. Það hefur áður skeð að ég get verið sallarólegur á ögurstund en áfallið kemur seinna. Ég tó því pokann minn ákveðin í að fara ekki meira til sjós. Réði mig í beitingu í Garðinum á Ölduna  RE. Dreif mig í bílpróf og 1 apríl hætti ég að reykja og beitti fram í miðjan maí þá hélt ég heim til Skagastrandar og var svo sannarlega  reynslunni ríkari.  Já jafnvel enn 40 árum síðar.             

                                                                                                                      

                          Skersó í jan 2008  VALDI hún           

 

 

 

 

02.05.2010 14:52

Sögur af sjó og landi

Sögur af sjó og landi

 

Beta í Brautarholti og Ólafur sonur hennar sóttu á huga minn og mig langaði að rifja upp það sem ég mundi og heyrði um þeirra langa lífshlaup á Skagaströnd nú 52 ári eftir hörmulegan endir á hennar lífi þann 11 janúar 1958. Ég var 9 ára þegar hennar lífshlaupi  lauk og í minningunni var þessi litla gamla kona eins og svartur skuggi þegar hún gekk um götur á ströndinni alltaf í skósíðri svartri kápu og svört í framan og hárið eins og það hafi aldrei verið þvegið og engar tennur.  Ólafur sonur hennar leiddi  hana hönd í hönd niður Fellsbrautina líka í skósíðum svörtum frakka en Beta var orðin nánast blind og Óli litlu skárri með sjón og kannski  með tvær tennur. Mér fannst stundum þau vera allan daginn að labba í gamla kaupfélagið sem stóð rétt norðan við Holt eða í verslun Andrésar Guðjónssonar (gamli Kántríbær) en þau fóru aldrei nema fetið.  Brautarholt stóð við Fellbrautina síðustu árin en áður var lítið tún sunnan við bæinn þar sem Fellsbrautin er núna. Brautarholt var byggt utan í svokallaðan Gónhól úr torfi og grjóti en framhlið úr timbri einhver gripa hús voru inn af bænum tóm hrófatildur þar hafði Óli nokkrar kindur.  Þarna bjó Beta í sárri fátækt. Það var gengið inn í bæinn um lítinn skúr og var herbergið hennar Betu þar fyrir innan svo tók við herbergi Óla og Þuríðar konu hans. Óli gekk alltaf undir aukanafninu gón. Í þau skipti sem ég kom í Brautarholt var ég að sendast með eitthvað fyrir pabba rauðmaga eða eitthvað annað til að gefa að borða og fannst mér hreinasta ævintýri þegar mér var boðið í bæinn en ég er ekki frá því að ég hafi verið hálf smeykur líka og aldrei gat ég borðað neitt af því sem Beta bauð mér upp á t.d. kex eða eitthvað annað þegar út var komið hafði ég ekki list á  því. Mér er en minnistætt eitt Sinn er ég var sendur til Betu en þá var hún að vaska upp diska ekkert vatn var og með grútskítugri tusku  þurrkaði hún matarleifarnar af disknum og setti upp í rekka á veggnum. 

Allt annar bragur var hjá Þuríði konu Óla í innri bænum þrifalegt og hún snyrtileg og hrein þrátt fyrir fátæktina en sjaldan sá ég Þuríði koma út fyrir bæjardyr. Það voru fastir liðir hjá Óla að skvetta úr skólpfötunni út fyrir túngarðinn á morgnanna og sækja vatn í brunninn sem var við bæinn ég held bara að þetta hafi verið sama fatan  "fjölnota". Mikill hverfisteinn stóð á hlaðinu þar brýndi karl ljáinn en ekki held ég að hann hafi verið mikill sláttumaður en karlinn sótti sjó á yngri árum suður á land. Í Húnavökuriti 1970 og 71 fjallar séra Pétur Ingjaldsson um Ólaf sem ungan  mann og taldi að hann hefði  hneigst meir til bókar en erfiðisvinnu og fjallar einnig um Elísabetu móður hans þær hörmungar sem hún og aðrir máttu þola um aldamótin 1900 og framan að þeirri öld en ekki orð um 11 desember 1958 hefur sést á prenti hingað til. Séra Pétur sýndi alla tíð Brautarholts fólkinu rækt og vinskap meðal annars sá hann svo  um að Óla  hlýnaði um hjartarætur reglulega að kristinna manna sið.

Óli sótti stjórnmálafundi og mannfagnaði og tók þá gjarnan til máls og þótti fólki oftast nóg um er Óli fékk orðið því mikið gap og geiflur smjatt og þagnir fylgdu jafnan með og síðan kom kannski: fundarstjóri í fyrsta lagi kemur mér þetta ekki við í öðru lagi þá hef ég ekki vit á þessu  og í þriðja lagi þá er ég alveg að drepast úr tannpínu. Óli var ekki mikil tilfinningavera eins og væntanlega margir af hans kynslóð og segir sagan að þegar Þuríður kona hans lá banaleguna á Héraðshælinu á Blönduósi gerði karl sér ferð inneftir til að heilsa upp á kerlu sína og segir er inn að rúmi hennar kemur:  nú ert þú að deyja Þuríður og dregur upp tommustokk og hyggst slá máli á kerlu sína. Eitthvað líkaði starfsfólki Héraðshælisins þessar aðfarir karlsins ekki og var honum vísað á dyr en Þuríður grét undan mælingunni. Alveg frá fyrstu minningu um Óla gón var hann gamall og hrumur og man ég vel eftir heimsóknum hans þegar ég átti heima  í Dagsbrún. Þegar þessir atburðir skeðu er Óli 67 ára sem þykir ekki hár aldur í dag. Ég var nábúi Óla í mörg ár byggði norðan við Gónhól að Hólabraut 12 áttum við oft spjall um alla heima og geyma og var karlinn greinilega vel lesin og þegar blindan varð algjör fylgdist hann vel með öllu í útvarpi. Einhverra hluta vegna kom ég aldrei inn í Brautarholt eftir að ég varð fullorðin kannski var myrkfælnin einhverstaðar ennþá hver veit.  Eftir að Óli fór inná Héraðshælið heimsótti ég hann ef ég átti leið um og alltaf  þekkti hann röddina í mér þá orðin alblindur og í síðasta skiptið sem ég hitti Óla lá hann með brennivíns flösku í hendinni í rúminu og hélt fast um stútinn og sagði mér farir sínar ekki sléttar því starfsfólkið væri alltaf að stelast í flöskuna og hún því alltaf tóm en allir vissu að sá gamli staupaði sig ANSI hressilega og þar lá nú hundurinn grafin og flaskan galtóm. Óli lést 6.10.1985. þá 94 ára. Sem góðir grannar sóttum við Jón Helgason kistuna inn á Héraðshæli og komum fyrir í Hólaneskirkju. En víkjum nú aftur að Betu gömlu eins og hún alltaf kölluð mig grunar að lífið og fátætin hafi ekki farið mjúkum höndum um Elísabetu Karólína Ferdínandsdóttir eins og hún hét fullu nafni var  fædd í Kurfi 1865 og eldri systir hennar Margrét fædd ( 1859-1955) bjó í Hátúni í Nesjum bróður áttu þær sem Gísli hét (1831-1902) faðir þeirra og kona hans Herdís Sigurðardóttir (1838-1889) bjuggu í Kurfi á þessum árum en seinna í Örlygsstaðaseli sem seinna var kotbýlið Hólmi. Beta eignaðist þrjú börn: Ólaf Jón Guðmundsson  Brautarholti fæddur á Hofi (1891-1985) Eiginkona Þuríður Jakobsdóttir (1880-1965)  þau voru barnlaus

Halldór Jónsson Guðmundsson bóndi Hólma fæddur á Klöpp á Kálfshamarsnesi (1893-1981)

Eiginkona Hlíf Sveinsdóttir (1882-1926) Þau áttu 4 börn og eiga fjölda afkomanda 

Herdísi Antoníu Ólafsdóttir  (1896-1926) kennari Blönduósi  hún var gift Halldóri Leví verslunarmanni Blönduósi þau voru barnlaus. 

Beta hefur væntanlega þvælst á milli bæja sem vinnukona eins og svo margir fátæklingar á þessum árum en 1915 byggir Ólafur sonur hennar Brautarholt er trúlegt að það hafi verið hennar fyrsta örugga heimili og einnig það síðasta. En svo rennur upp 11 desember 1958 sem var ósköp venjulegur dagur í Höfðakaupstað eins og það hét þá nú Skagaströnd fram undir hádegi. Ég sat við eldhúsborðið heima á Fellsbraut 5 og var að borða hádegismat borðið stóð undir austurglugga en við bjuggum á annarri hæð og gott útsýni pabbi sat á móti mér við borðið ágætt veður var en miklir snjóruðningar á götum og skóf lítils háttar.

Flutningabílstjórinn Valdimar Númi Guðmundsson (1926- 1972 var að losa vörur úr flutningabíl sínum H-275 sem hann kom með að sunnan úr Reykjavík daginn áður fór hann niður í mýri að losa húsgögn hjá Kristófer Árnasyni á Sunnuvegi 1. Hjalti bróðir minn var að hjálpa Núma að losa og kom labbandi yfir Reykholtstúnið. Engin leið var að snúa bílnum við og varð Númi að bakka alla leið upp á Fellsbraut þegar hann kemur í brekkuna hjá Reykholti voru snjóruðningarnir hvað hæstir og var eitthvert kóf í snjógöngunum sem settist hugsanlega á baksýnispegla bílsins mér verður litið út um gluggann þegar bíllinn er  að byrja að koma  í gegn um ruðninginn og sé einhverja svartar þústir aftan við bílinn og segi við pabba að ég heldi að strákarnir í Reykholti  séu að hanga aftan í bílnum hjá Núma.

Palli í mýrinni var nýfarin út frá okkur eftir eitthvað erindi við pabba næsta sem ég sé er að bíllinn stoppar og Númi stendur framan við bílinn og veifar báðum höndum eins og óður maður og Palli kallar Skafti Skafti komdu fljótt pabbi stökk á fætur með hníf og gaffal í hendi og með það  hljóp hann út til Núma og þá kom skelfingin í ljós á götunni fyrir framan bílinn lágu tvær manneskjur önnur látinn en hin stórslösuð. Beta var að koma úr Brautarholti og ætlaði í mat í Reykholti (Fellsbraut 6) til Laufeyjar Jónsdóttur (1897-1969) en sú heiðurskona mátti aldrei neitt aumt sjá og má segja að hún hafi stofnað fyrsta elliheimilið á Skagaströnd. Hjá henni í heimili var Páll Ingvar Jónsson fæddur 3-9 -1887 í Álftaneshreppi kenndur við Finnstaði hann var orðin 71 ára. Biður Laufey Pál að fara á móti  Betu og hjálpa henni yfir snjóruðningana en hún var orðin 93 ára og nánast blind gekk ferðin því seint en þegar þau koma á brún snjóruðningsins gerist annað hvort þau sjá ekki bílinn eða detta niður á götuna sem var bara eins bíls breidd og því fór sem fór. Beta lést samstundis en Páll lærbrotnaði og eitthvað meira þau voru borin inn í Reykholt í teppum var pabbi að hjálpa til við þetta en Páll var fluttur inn á Blönduós á sjúkrahúsið þar lést hann þremun dögum seinna.
Þau voru jarðsett í Spákonufellskirkjugarði hlið við hlið en nýfætt andvana stúlkubarn frá Blönduósi var sett í kistuna með Betu.

Seinna komst ég að því að þetta var systir eiginkonu minnar. Óli hélt líkræðu yfir mömmu sinni sem hófst á þessum orðum. Nú er mamma dauð. Númi drap hana hérna  upp á melnum. Ég man hvað mér fannst þetta skrýtið orðalag og eins þegar hann kom á slysstað og spurði er mamma dauð?  Mér fannst eiga að segja dáin. En svona var bara Óli í Brautarholti öðruvísi. Allir bæjarbúar voru í áfalli eftir þennan atburð en lítið var um hann rætt út á við meira í hljóðum í heimahúsum að tillitsemi við Núma og hans nánustu. Þessi atburður allur fór ansi illa í sálartetrið á mér og var ekki á bætandi ég var frekar myrkfælinn á þessum árum og verða nánast áhorfandi að slysinu bætti ekki um. Eftir á að hyggja tel ég það eitthvað með myrkfælnina að gera hafi verið foreldrum mínum að kenna (ómeðvitað) og því fólki sem kom í heimsókn til þeirra sem hafði alist upp í moldarkofum og ljósleysi síðustu aldar og efaðist ég aldrei um að allt sem þetta fólk sagði  væri satt og rétt og líklega trúði fólk þessari vitleysu sjálft og eftir hefðbundið draugasögu kvöld var ég svo hræddur að ég sofnaði ekki og lá tímunum saman með sængina  yfir höfðinu því að það var sama hvert ég leit ekkert nema draugar og þegar verst lét pissaði ég heldur í rúmmið en að fara á klósett. En lengi getur vont versnað þar sem pabbi var með þeim fyrstu sem kom að slysstað kom fólk til að frétta af hvernig  aðkoman hefði nú verið og hlustaði ég á þessar hryllingssögur kvöld eftir kvöld og það sem kannski alverst var að ég þurfti að sækja á hverju kvöldi einn lítra að mjólk suður í hús eins og það var kallað heima (Sunnuveg 3) til Jóhannesar og Dagnýjar ekki þorði ég fyrir mitt litla líf að fara veginn þar sem slysið varð og í dag heitir Sólarvegur enda engin götulýsing. Ég klöngraðist heldur framhjá fjárhúsunum í Reykholti og yfir túnið og setti örugglega mörg íslandsmet í spretthlaupi og alltaf fannst mér einhver vera á eftir mér. Þetta var langur og strangur  vetur út af hræðilegu slysi einum mjólkurlítra og myrkfælni á háu stigi.

Fljótlega fór að bera á að Páll Yngvar Jónsson var ekki sáttur við sinn legstað og kom það að mig minnir fram í draumum þeirra Reykholtsystra og endaði með því að hann var grafin upp og færður við hliðina á grafhýsi þeirra Reykholtshjóna sem þau höfðu látið reisa sér en nú hefur verið jafnað við jörðu. En Elísabet Karólína Ferdinandsdóttir hvílir sátt á sinum stað með nýfætt barn við brjóst sér nú 145 árum frá fæðingu sinni og er elsta manneskja sem ég man eftir enda orðin 84 ára þegar ég fæddist. Litla stúlkan sem hvílir hjá henni hefði orðið 52ára á þessu ári. Svona er nú lífið og dauðinn og engin sleppur.

 

 

Þessi saga þótti ekki hæf til birtingar í Húnavökuriti

 

Valdi hún

Skersó Janúar 2010                                    

                                 

 

                    

 

 

 

 

  • 1
Flettingar í dag: 5
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 59
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 89735
Samtals gestir: 5831
Tölur uppfærðar: 7.2.2023 01:47:01