27.09.2011 12:47

Sögur af sjó og landi 1965

                     Sögur af sjó og landi 1965


Það var haustið 1965 að ég var ráðin í vinnu hjá Kaupfélagi Skagstrendinga (KAST) við slátrun á sauðfé. Mitt starf var að  þvo kjötskrokkana en það var töluverður starfsframi frá árinu áður en þá vann ég við að hræra í blóðinu. Mér við hlið í kjötþvotti var bekkjabróðir minn Guðmundur Guðmundson vorum við vopnaðir vatnsbyssum  með bursta og vildi stundum koma fyrir að vatnsbunan vildi ekki rata rétta leið einkum ef munnur var opin eða annað líkhamslíti  blasti við.  Í fyrstu voru þetta að sjálfsögðu algjör óviljaverk og beðið afsökunar en fljótlega kom annað í ljós og held ég að fáa daga höfum við Guðmundur komið þurrir heim eftir erfiðan vatnsvinnuslag en fer litlum sögum að kjötþvottinum.Það voru margar ógleymanlegar persónur sem unnu við slátrun þetta haust og sumar unnu bara við þetta og ekkert annað bara eins og fara á vertíð og veiða fisk en þarna voru lömb drepin í akkorði. Sláturhússtjóri var  Jóhannes Hinriksson  í  Ásholti fínn karl.  Yfirdrápari var Ingvi í Valhöll. Í fláningu voru Sigmar Jó, Benni Ólafs, Bjarni Lofts og Haddi á Iðavöllum (stóri fíll).  Í fyrirista voru Skafti Fanndal og Kári á Kárastöðum og man ég ekki betur en Lúlli, Bjössi og Hinni bræður hans væru þarna líka furðulegir fírar og voru oft hafðir að háði og spotti það heitir í dag einelti. Við innmat unnu Soffía í Valhöll, Lilja í Holti, Jóhanna og Axel á Læk og Inga Dísa í Hjallholti. Þarna voru  Ingvar Hreppstjóri, Gústi púff í Blálandi og Hinni hukka þeir söltuðu gærurnar. Ég man ekki hverjir voru í kalda kjötinu en minnir að Geiri á Felli væri þar og Palli í Mýrinni væri í fjárréttinni en langflestir eru farnir yfir móðuna miklu.  Jóhanna á Læk var oft að bjóða mér heim í kaffi og vissi ég ekki hvernig ég átti að taka á þessu helvítis kaffiboði ég taldi mig kunna að drekka brennivín og Spur en um kaffi vissi ég ekki neitt.

Einn daginn er við Jóhanna vorum að lalla heim vestan úr sláturhúsi ákvað ég að slá til og þiggja boðið og var mér boðið inn í eldhús og Jóhanna fíraði vel upp í gömlu Skandía eldavélinni og ketilinn yfir og brátt var kaffið til og Axel komin heim og við öll sest við lítið borð undir glugga sem snéri að Karlskála og kaffið sötrað að gömlum sið.  Það er mér ferskt í minni að talið berst að heysæti undir striga  sem stóð á túninu fyrir utan gluggann og átti sér einskis ills von þá segir Axel og bendir að þetta séu minnst tíu hestar en Jóhanna brást hin versta við og taldi sætið vera miklu minna og um þetta jöguðust þau góða stund en ég sat eins og illa gerður hlutur og hafði engan möguleika á að bera klæði á vopnin sökum vankunnáttu minnar á stærð heysáta í  hestburðum en mér var hugsað til þess eftir að hafa þakkað fyrir mig og hvatt þau heiðurshjón að það væri jagast á fleiri stöðum en Fellsbrautinni. En það má til gamans geta þess að Axel var með skemmtilegri mönnum á Skagaströnd á sínum tíma og sagði af sér frægðarsögur í anda Munkhásen  sem að sjálfsögðu ekki nokkur maður trúði en eru örugglega enn sagðar í góðra vina hópi á Ströndinni.

 Dagarnir voru oft lengi að líða við kjötþvott og kvíið í Kára Kristjáns og auðvitað lærði maður af honum að kvía og hvernig átti að riðlast aftan á kerlingunum en námið nýttist ekki sem skildi allavega ekki verklegi þátturinn því kerlingarnar voru allar svo andskoti gamlar. Einn daginn kom Jóhann á Lækjarbakka og var mikið niðri fyrir og bað Jóhannes Sláturhússtjóra að lána sér menn til að leita að Axel Ásgeirsyni á Felli sem væri týndur en Jóhannes sagðist ekki geta stöðvað slátrun Jóhann varð mjög reiður við og reif í Jóhannes og man ég aldrei eftir að hafa séð geðprýðimanninn Jóhann á Lækjarbakka í öðrum eins ham.  Axel á Felli  fannst látinn seinna um daginn, Þetta var 21 september. það plagaði mig nokkuð að ég var farin að reykja en hafði ekki enn látið pabba sjá það og varð að laumast og einu sinni sem oftar í kaffitíma er ég staddur í suðurdyrum að svipast eftir felustað en þar á fjárréttinni var áfastur kamar og einn vinnufélagi minn kvenkyns stemmdi þangað og sér mig í dyrunum og vissi greinilega hvernig landið lá og kallaði komdu Valdi og lét ég mig hafa það enda ein síkó í boði var nú skellt í lás kamarinn var mjög þröngur og þegar vinkonan var búin að leysa niður um sig og sest stóð ég nánast á milli læra hennar svo kveiktum við í tveim Roy og sugum fast og eftir á  að hyggja djöfull var ég heppin að hún var bara að pissa.  

Einn daginn sagði Guðmundur bekkjabróðir mér að honum hefði verið boðið pláss á m/b Helgu Björgu sem var á síldveiðum fyrir austan land ég varð grænn af öfund en lét á engu bera en ráðlagði Guðmundi eindregið að fara hvergi hann yrði örugglega drepin. Nokkrum dögum síðar hringir síminn heima á Fellsbraut 5 og svara ég og þekki ég strax rödd Þorfinns Bjarnasonar útgerðarmanns sem segir sæll "góði" er Vilhjálmur bróðir þinn heima "góði" mig vantar mann á Helguna ég sagði eins og var að Villi bróðir væri nýráðinn á bát fyrir sunnan en bætti við hikandi en getur þú ekki bara notað mig, smá þögn getur þú komið "góði" komdu á skrifstofuna hjá  mér í fyrramálið "góði" og fáðu peninga þú verður að fara austur á morgun blessaður "góði". Það var bæði tilhlökkun og kvíði sem fóru um huga mér eftir símtalið ég sagði pabba og mömmu að ég væri hættur á sláturvertíð og væri að fara á síldarvertíð austur á firði  þau tjáðu sig lítið um þessa ákvörðun mína enda reynslunni ríkari í að reyna eitthvað að tjónka við mig.  Daginn eftir var ég komin á leið til Akureyrar með Norðurleið þar urðu mér samferða tveir jeppar á fjalli á leið til Egilstaða, Indriði Hjaltason og Högni Jensson áttu þeir að mæta um borð um Bogguna eins og þeir sögðu á Seyðisfirði daginn eftir. (Akraborg E A 50) Það verður aldrei sagt að ég hafi ekki fengið fræðslu á leiðinni um allt það sem viðkom  kvennafari fylliríi sukki og svínaríi á síld og held ég að þetta hefði ekki talist gott trúboð þá né í dag og þar að leiðandi ekki prenthæfur boðskapur hér.  Bakkus var að sjálfsögðu með í för hjá þeim félögum og hvöttu þeir mig óspart til dáða og veit ég ekki hvert þeir ætluðu þegar ég sagðist ekkert vilja með þann drullusokk hafa og ætlaði að mæta edrú um borð í Helguna.  Þeir félagar fullyrtu að þetta merkti bara eitt ég yrði drepin.  Við flugum frá Akureyri til Egilstaða og skildu þar leiðir jeppar tóku rútu  niður á Seyðisfjörð en ég niður á Norðfjörð alsæll með glímuna þar sem ég felldi Bakkus en óhætt er að segja að hann átti eftir að hefna sín grimmilega.

 Þegar niður á Norðfjörð kom um kvöldið var svartaþoka og gekk ekki allt of vel að finna heimili Jóns Karlsonar sem átti söltunarstöðina Mána en þar lagði Helgan upp aflann og átti ég að vera hjá honum þar til Helgan kæmi í höfn. Jón átti líka Lóminn K E 101.  Mér var vel tekið hjá Jóni og ég held móðir hans indæl kona gaf mér að borða og sagði Jón að hann vissi ekki hvenær Helgan kæmi og ég ætti að sofa og borða í Mánabragganum og keyrði  mig þangað síðan hef ég ekki séð þann mann. Klukkan 7 morguninn eftir er ég vakin með látum til vinnu á planinu og vissi ég ekki  hver djöfullinn væri í gangi ég var ekki að ráða mig á neitt helvítis síldarplan. Þannig liðu þrír dagar og ég pæklaði mínar tunnur eins og segir í ljóðinu hans Bubba 10 tíma á dag á fjórða degi er mér sagt að ég ætti að fara út á miðin með vélbátnum Þránni N K 70  sem var 85 tonna eikarbátur ég var ósköp fegin að losna úr dýrasta fæði og húsnæði sem um getur í íslandsögunni og aldrei held ég að Þorfinnur Bjarnason hafi trúað þessu almennilega upp á Jón Karlsson. Ég var hálf umkomulaus um borð í Þránni á leiðinni út í Helguna sem var stödd út á svokallaða Rauðatorgi og hafði gengið eitthvað illa að ná í silfrið undanfarna daga. Því  lá ég í koju sem vélstjórinn á Þránni lánaði mér allt útstímið og smakkaði ekki vott né þurrt einhver kaldadrulla var á móti leið mér ekki allt of vel. Þegar á miðin var komið var Helgan nýbúinn að kasta nótinni og var sendur léttbáturinn eftir mér honum stjórnaði Ingibjörn Hallbertsson annar vélstjóri  fórst honum  það mjög vel úr hendi  hann bauð mig velkominn og sagði mér að reyna að hoppa um borð á réttu róli.

Ég þakkaði áhöfninni á Þránni fyrir mig og komst þurr um borð í léttbátinn sem hoppaði og skoppaði sem aldrei fyrr ekki var neitt það um borð í jullunni sem hefði getað bjargað manni frá því að fara til helvítis ef eitthvað bar útaf flotholt eða bjargbelti sem þykja sjálfsagðir hlutur í dag en við Ingibjörn ákváðum að fara bara styttri leiðina um borð í Helguna.

Mynd: Valdi og Daddi um borð í Helgunni

  Það er óhætt að segja að ljósadýrðin á torginu væri ótrúleg þegar hundruð skipa voru að kasta snurpa draga eða háfa á litlu svæði og þannig var einmitt þegar við lögðum að bakborðssíðunni á Helgunni  ég klöngraðist um borð með pokann minn og fyrstu orðin sem ég heyrði voru þessi ef "við fyllum ekki í þessu kasti þá verður þér sko hent í sjóinn helvítið þitt"  þarna var  Gylfi Sigurðsson að bjóða mig velkominn og sannleikurinn var sá að ég var hreint ekki velkomin um borð því áhöfnin hafði skipt aflahlut tólfta  mannsins á milli sín í nokkurn tíma og fannst það bara allt í lagi en Þorfinnur útgerðamaður réði ferðinni og helvítið mætt. Vélstjórinn Hallgrímur Kristmundsson mótmælti strax þessum hugmyndum og meðferð á mér og má segja að hann gengi mér í föðurstað á þessari ögurstund  og hvort hann bjargaði lífi mínu eða það að við  fylltum dallin í kastinu kemur aldrei í ljós en allavega slapp ég við að bera beinin á Rauðatorginu og Hallgrímur gekk eftir þetta undir nafninu fóstri.  Mynd Hallgrímur fóstri.

Hófst nú skemmtilegur tími með frábærri áhöfn og mokveiði á síld. Fyrsta embættið um borð var að vera nálabrók við það sat ég í hlýjunni í dyrunum á skorsteinshúsinu og rakti nótagarn í nálar ef nótin rifnaði sem vildi koma allt of oft fyrir og stundum hreinlega sprakk hún ef síldartorfan var of stór þurfti þá stundum að rimpa í marga klukkutíma eða fara í land á nótaverstæði. Þetta voru ótrúlega skemmtilegar veiðar þegar komið var á miðin var lónað með astikkið á fullu og maður var fljótur að þekkja hljóðið sem þýddi "klárir"og þá var sko betra að vera það og baujan út og stór belgur sem snurpu vírinn var festur í síðan skottið út og láta fara kippt í sleppikrókinn og tekin hringur og maurildið lýsti upp hafflötinn  einn maður var framá hvalbak með handfærarúllu frá Hellu og girni á henni var fast við  baujuna til að auðvelda að ná henni um borð síðan snurpu vírnum lásað inn á spil og byrjað að snurpa og allt þurfti þetta að gerast hratt og ekkert mátti fara úrskeiðis meðan var verið að ná nótinni saman en þá önduðu menn léttar og spáðu í afla og var byrjað að draga í geilina sem var föst í seinni enda nótarinnar og þegar allt var komið upp í blökk  var byrjað að draga og snurpu lásarnir hengdir á síðuvírinn einn af öðrum það var helvítis púl að stýra vírnum inn á  spil trommurnar með járni sem vatnsrör skrölti utanum en engin fékkst um svoleiðis á þessum tíma. Og allt gerðist þetta í svartamyrkri því að það var hrein dauðasynd að kveikja ljós fyrr en búið var að snurpa og gengu sögur um að menn hefðu verið reknir fyrir það eitt að kveikja sér í sígarettu. En síðustu árin sem síld veiddist við landið var hún að dýpka á sér ár frá ári eins og hún væri að forðast síldarnæturnar og ljósin á skipunum og var því mætt með dýpri nót og ljósleysi því fór sem fór og oft fór illa eina nóttina 22 október sökk Eldey KE 37 rétt hjá okkur á Helgunni og Pétur Sigurðsson RE 331 var nærri sokkin sömu nótt og kannski var kappið of mikið hvað varðaði hleðsluna en vantaði forsjána sem sést best á gömlum myndum. Það var fátt skemmtilegra en að leggjast að bryggju með dauðhlaðið skip af síld og landa í bræðslu þetta var töluverður mokstur úr stíum  lempa að löndunar krana og því þótti meira spennandi að landa í saltið því þá gafst smá  tími að kíkja á stelpurnar og var ekki verra að vera málkunnugur einhverri blómarós fyrir næsta landlegu ball

 Ég var strax tekin inn í þann hóp áhafnar sem hugsaði mikið um konur og vín og fóru með bæn á kvöldin um landlegu í staðin fyrir faðirvorið og ef það dugði ekki var stundum klórað í frammastrið og sungið "Ólafur reið með björgum fram hvessi hann á norðaustan" og trúðu sumir að þetta klikkaði  aldrei ég fór fljótlega að tuldra með. Annað sem alls ekki mátti klikka var að 12 flösku kassi af sjéniver væru á hverju pósthúsi frá Raufarhöfn í vestri að Djúpavogi í suðri þó við lönduðum oftast á Norðfirði þetta skapaði öryggiskennd og allt á nafni þeirra ráðsettu um borð og lögráða. Einu sinni vorum við með illa rifna nót inn á Norðfirði og áhöfnin  að hjálpa viðgerðarmönnunum að taka nótina upp á bryggju en eitthvað fór úrskeiðis með Bakkus því einn félaginn lenti undir nótinni og varð að spóla til baka og bera kappann á bak við tunnustafla og síðan um borð en nótamennirnir hótuðu að hætta ef við kæmum nærri nótinni. Þegar óskalandlegu spáin kom loksins var þegar hafin undirbúningur og drullugallinn settur í spotta og hengdur aftaní og kjölfarið látið um restina en þá var líka betra að fylgjast með þegar í land var komið og Daddi fór að bakka þvottavélinni annars héldu menn kannski bara spottanum svo þurfti að viðra jakkafötin og ef vel átti að vera hefði þurft mánuð til að slá á mestu slagvatnsfýluna sem var okkur lifandi að drepa og við vorum búnir að taka eftir því að ef við skruppum í bíó að fólk forðaðist að sitja nærri okkur var því vel rúmt um okkur en þetta gekk ekki á balli og voru menn vel vopnaðir af allrahanda ilmvötnum og rakspíra ásamt adrett og brilli í hárið allt  í barátunni við kvenna slagvatnsfæluna og þetta gekk svo langt að menn voru farnir að kvísla að dömu í loka dans í staðin fyrir ég elska þig!
Mynd:Jói Biggi Flankur Biggi

 Viltu geyma fötin mín? það þótti því stórsigur í kvennamálum að koma jakkafötum í geymslu á þessum tíma en aðrir töpuðu sínum ef framboð var mikið.

 Þegar á dansleik var komið voru menn yfirleitt komnir í rétta gírinn og búnir að slátra nokkrum sjennabrúsum  og fóru flestir að kíkja eftir lóðningu og dansa  sumir vildu bara drekka syngja  hlæja eða gráta svolítið og kannski dóu svo bara fram á borðið aðrir  vildu bara gefa einhverjum á kjaftinn og vildi  þá oft fjölga í hópnum við slíka aðgerð og kom fyrir að menn lentu í grjótinu með tilheyrandi móral  og marbletti daginn eftir. Gunnar Pálmason bjargaði okkur oft þegar við rifum of mikinn kjaft stóð bara upp og sagði með sinni þrumuraust látið strákana mína í friði og það dugði. Eina nótt eftir ball vorum við Assi  á rangli eitthvað slompaðir að vanda og hafði veiðin brugðist á ballinu og kannski var það helvítis slagvatnsfýlan alla vega ákváðum við að nú skildi gert útafvið fýluna í eitt skipti fyrir öll og klifruðum yfir grindverkið á sundlauginni og stungum okkur til sunds í fullum herklæðum en ekki tókst okkur að klára 200 metrana sem var mjög hvatt til um þessar mundir því laganna verðir tvö stykki stóðu skyndilega á laugarbakkanum og sýndust ekki vera mjög kátir en við vorum hinsvegar mjög  kátir og töldum hreinsun á fötunum hvergi lokið og gekk svona lengi vel og löggurnar urðu reiðari og reiðari og við kátari og kátari það var alveg  ljóst að þeirra föt voru nýhreinsuð og þeir ekki til í 200 metrana en kátínan hvarf þegar við loksins töldum fullhreinsað og stigum á land.              Mynd: Assi og Valdi

Eitthvað þurfti að berja okkur og skella okkur á bakkann og handjárn aftur fyrir bak og beint í grjótið rennandi blautir og ískaldir klefar og mátti þakka fyrir að við vorum ekki drepnir þarna úr kulda ég forkelaðist það illa að ég var í margar vikur að ná mér en saga jakkafatanna okkar varð öll en lyktin hélt sínu.  

Einhverju sinni frétti ég að Finnar sem lágu af sér brælu á Norðfirði vantaði  Vodka og borguð með forláta úrum ég átti eina bokku í öxlum og fyllti með vatni og 300 krónur átti ég í peningum og með þetta að vopni lallaði ég um borð í Finnska dallin sem nærst lá bryggju og niður í lúkarinn og sýndi bokkuna og viðbrögðin voru harkaleg þrír stukku að mér og vildu versla og greinilega framboð ekki í samræmi við eftirspurn og lá einn strax rotaður rétt hjá mér og fljótlega flúði annar að hólmi ég varð svo hræddur og ætlaði að fara að hlaupa upp stigann þegar sá sem harðast gekk fram var komin að mér og vildi greinilega bokkuna ég var mállaus af hræðslu og vildi bara komast upp úr dallinum áður en ég yrði drepinn og tilbúin að láta bokkuna til að halda lífi og þar sem engin hnífur var á lofti eins og Finnar eru frægir fyrir og hékk í hverri koju þarna þá benti ég hikandi á úrið á hendi mansins og tók hann það strax af sér og rétti mér og ég rétti bokku og 300 krónurnar og ég skildi nóg til að sjá að honum fannst krónurnar of fáar en bokkan hélt og aldrei á ævinni  hef ég verið jafn fljótur upp einn lúkarsstiga og upp á bryggju og hljóp alla leið um borð í Helguna og úrið gekk í fjölda ára. Veiðarnar gengu vel þetta haust bæði á sjó og landi og þegar við komum heim á Skagaströnd í desember átti ég sand af seðlum og gaf pabba fyrir nýjum tönnum sem hann bráðvantaði ég get því sagt eins og Bjarni minn Helgason í Holti sagði um að Lilja kona hans væri með lúðutennur, pabbi var með síldartennur.

Í janúar 1966 var farið á línuveiðar á Helgunni frá Skagaströnd og fór ég í beitingu og stóð beituskúrinn vestan við Vélaverkstæði KxÞ  var ég orðin nokkuð vanur því að beita en  aldrei tekið fulla setningu 8 bjóð og fleiri voru að byrja Eðvarð Ingvason, Sævar Hallgrímsson, Bjarni Loftsson var landformaður. Hartmann Jóhannesson og Jóhann Pétursson allir hundvanir. Það var oft mikil keppni á milli okkar yngri og óreyndari í skúrnum en við þá reyndari þýddi lítið að eiga nema eitt og eitt bjóð en úthaldið skorti. það var byrjað að beita milli 3 og 4 á nóttinni og var oft helvíti kalt meðan ofninn var að hitna sem stóð í miðjum skúrnum og svo var átan í síldinni okkur lifandi að drepa og vorum við svo slæmir fyrst á nóttinni ef mikið var róið að við gátum varla náð Lilla út til að míga og ég tala ekki um ef einhver  þurfti að fara út fyrir vegg í öllum veðrun að gera meira  þetta hefði flokkast sem heilbrigðis vandamál  í dag.  Þarna sýndi sig best að kapp er alltaf best með forsjá og höfðum við sem yngri vorum fengið pillur frá borði um hvort önglabeygjan væri biluð og ábótin búinn og auðvitað kannaðist engin neitt við neitt svo gerist það í einu kappinu á milli okkar tveggja félaga  allt í einu  kallar einhver í Bjarna og heimtar að hann komi og skoði ofaní balann hjá mótherja mínum og Bjarni geispaði og kom á staðinn og byrjar að rekja upp úr balanum og þegar hann var búinn að telja 12 króka sem vantaði á gekk hann burtu og var svo brugðið að hann gleymdi að geispa var nú heimtað að rakið yrði eins uppúr mínum bala og slapp ég með skrekkinn í þetta sinn.  

Eitt var það vandamál sem við stríddum við þennan vetur og það var Kvennaskólinn á Blönduósi og töldum við okkur ómissandi á þeim stað og skipti  engu máli hvernig stóð á vinnu við bátinn og töldum við okkur eiga góða að þá Indriða Hjalta og Snorra Gísla sem voru atvinnulausir og hlupu í skarðið fyrir okkur Edda að taka á móti bátnum á laugardagskvöldum og beita eitt kvöldbjóð þegar illa stóð á. Einu sinni en oftar leitum við til þeirra í algjörri neyð ball um kvöldið og skólapíur í útivistaleyfi en svarið stóð ekki á sér NEI !  nú voru góð ráð dýr og ákváðum við að skrópa að taka móti bátnum og beita kvöldbjóðin daginn eftir og mættum í skúrinn eftir hádegi  eitthvað þvældir eftir næturvinnuna og viti menn fyrsta sem við sjáum eru bjargvættirnir okkar Indriði og Snorri að beita í okkar stað og Bjarni tilkynti okkur geispandi að Daddi skipstjóri hefði heimtað að við yrðum reknir. Ég hitti Dadda skömmu síðar og hann sagði jéaaá Bjarni heimtaði að þið yrðuð reknir þannig hljóðaði það heilaga orð og í ofan á allt vorum við hýrudregnir.

  

Viku  seinna hringdi Daddi í mig og réði mig á Helguna vetrarvertíðina í Grindavík 1966. Þá var ég og Ómar vinur minn búnir að ráða okkur á Gnýfara SH. En mér leist betur á gömlu félagana.

Áhöfnin á M/b Helgu Björg HU-7 haustið  1965.

Skipstjóri: Jón Ívarsson

1 Stýrimaður: Gunnar Pálmason 

1  Vélstjóri: Hallgrímur Kristmundsson

2  Vélstjóri: Ingibjörn Hallbertsson

 Matsveinn: Jónas Skaftason

 Háseti: Gylfi Sigurðsson

 Háseti: Bjarni Loftson

 Háseti: Byrgir Júlíuson

 Háseti: Jóhann Ingibjörnsson

 Háseti: Árni Sigurðsson

 Háseti: Örn Berg Guðmundsson

 Háseti: Þorvaldur Skaftason

Helga Björg HU 7 (180) var smíðuð á Akranesi 1962 úr eik 139 brl með 525 ha MWM díesel vél. Hét í upphafi Sigrún Ak 71 síðan Helga Björg HU 7 Hólmsberg KE 16 Þórður Sigurðsson KE 16 Framfari SH 42 Jón Halldórsson RE 2 Þorbjörn II GK 541. Ég held að hann hafi farið á bálið á Flateyri undir því nafni eftir 1990. Eitt að fáum eikarskipum sem var smíðað með perustefni.

 Skersó 2011  VALDI HÚN    

 Þessi skrif Þóttu ekki hæf til birtingar í Húnavökuriti  

Flettingar í dag: 77
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 102
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 202976
Samtals gestir: 22169
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 12:55:21