Færslur: 2014 Mars

21.03.2014 13:59

Lítið ljóð



Skafti Fanndal Jónasson

Litla ljósið

Ég ungur átti lítið ljós

sem  lifði í blárri skel.

Það fékk hjá sumum fagurt hrós

mér fannst það lýsa vel.

 

Og við þetta litla ljós

sem lýsti furðu vel.

Las ég sögur, líka ljóð

og lærði allt mitt kver.

 

Og um lítið ljós sem var

læt ég hugann sveima.

Hvað það góða birtu bar

í baðstofunni heima.

 

Skafti Fanndal Jónasson frá Fjalli.

 

 

08.03.2014 10:56

Sagan af Dagsbrún

Dagsbrún Skagaströnd.


Þetta er trúlega elsta myndin sem til er af Dagsbrún svarti skúrinn við Einbúann.

Nú er best að rifja upp aðdragandann að byggingu Dagsbrúnar og flutninginn til Skagastrandar.  Þá vorum við Jóna mín ung.

En að búa á Fjalli leist mér ekki vel á ég átti fátt fé og mæðiveikin var komin í minn litla fjárstofn og farin að höggva skörð í hann. Vorið 1941 fluttum við Jóna mín frá Fjalli til Skagastrandar.

Þennan vetur lá faðir minn veikur og dó hann um vorið þann 21 apríl. Þetta var mjög erfiður vetur þó var tíð góð og voraði snemma. En ég hafði mikið að gera með alla aðdrætti til búsins og líka þurfti alloft að sækja meðul inn á Blönduós  ásamt búverkum heima. En Jón Ólafsson kom að Fjalli um haustið með um 20 kindur og einn hest. Gekk hann að hirðingu með mér og marga daga sá hann einn um gegningar. Hann var góður fjármaður en hann var fatlaður og gat ekki unnið erfið verk. Á ég honum að þakka að ég gat sinnt öðrum störfum. Um veturinn var það af ráðið af föður mínum að Angantýr og Jóhanna systir tækju við jörðinni um vorið en við flyttum til Skagastrandar. Angantýr og Jóhanna bjuggu að Marlandi á Skaga. Það var í einni Blönduós ferðinni minni að ég gisti hjá Jóni Ben hann bjó á syðri brekkunni á Blönduósi það barst í tal að ég mundi flytja til Skagastrandar þá um vorið en hefði ekki neitt húspláss.  Jón var mjög kunnugur foreldrum mínum og vinfengi þar á milli. Sagði Jón mér að hann gæti selt mér lítið hús sem hann ætti það stæði uppá melum fyrir ofan Blönduós.  Ég varð mjög spenntur svo hann fór með mig að skoða það.


Hér sést í svartan stafninn á Dagsbrún undir Einbúanum.

Það var lítið 3,80 m. Á breidd og 6,50 m. Á lengd vatnsklæðning að utan en panill að innan og stoppað með torfi lágt ris með járnklæðningu. Það leit vel út stóð þarna á staurum. Leist mér vel á húsið þótt lítið væri. En við það mátti byggja. Við Jón gengum frá kaupunum kostaði það 800 krónur þar sem það stóð. Jón lofaði að smíða nýja glugga og rífa það með mér og var það innifalið í kaupunum.  Ég fór glaður heim og sagði þessi góðu tíðindi. Jóna mín varð glöð og pabba leist vel á þetta.

              

Brúðarmyndin af Skafta Fanndal og Jónu Guðrúnu við Ketukirkju 17 júní 1939.

En þú þarft að byggja við það eldhús og geymslu sagði hann. Þú mátt saga spýtur úr þeim rekavið sem til er. Farðu síðan út á Skaga og fáðu góðar spýtur þar.. Ég fór strax við fyrsta tækifæri með hest út á Skaga og keypti við af Bjössa í Nesi og Árna í Neðra Nesi mjög góðar spýtur sem hægt var að saga í borð. Við Hallgrímur frændi á Skeggjastöðum vorum búnir að vinna mikið við sögun út á Skaga og víðar.  Söguðum við heila húsgrind og klæðningu á hús á Hvalnesi á Skaga og unnum líka við smíðar á því húsi. Töldum við okkur færa um að byggja mitt hús. Réði ég Hallgrím í þetta verk með mér. Gripum við í að saga þegar stund gafst frá heimaverkum  sem við báðir þurftum að sinna. Kom hann ríðandi upp í Fjall þegar hann gat og þá var sagað af krafti. Við settum upp sögunarvirki yfir gamla votheysgryfju sem stóð á hlaðvarpanum. Þar var gott að velta drumbunum á virkið. Það var mjög góð tíð þegar kom fram á útmánuði og það voraði snemma. Jón sinnti um féð en ég leysti allt hey. Nú var næst að fá lóð undir húsið. Ég hitti Sigurð Jónsson hreppstjóra á Skagaströnd og mældi hann mér út lóð suðvestur af kirkjunni fyrir neðan Iðavelli. Iðavellir standa enn þegar þetta er skrifað. Síðan var að fá peninga fyrir húsakaupunum. En það átti að greiðast þegar það væri sótt. Ég var í reikning hjá Kaupfélaginu en átti lítið inni Grímur Gunnarson var Kaupfélagsstjóri hann tók við af Ólafi Lárussyni en þá var allt á kafi í skuldum hjá félaginu. Svo Gunnar var tregur til að lána sem von var enda lítið til af peningum. Fór ég nú að hitta Gunnar og spurði hvort hann gæti lánað mér átta hundruð krónur í peningum segi ég honum eins og er frá húsakaupunum  ég sé að flytja frá Fjalli og hætta búskap. Sagðist hann vita af þessu þar sem hann sæti í hreppsnefnd og nefndin búin að afgreiða það mál og mæla mér lóð og væri það allt í góðu lagi. Þá var búið að skipta Vindhælishrepp í þrennt og  ég að flytja í annað hreppsfélag. Gunnar spyr mig hverju ég geti lofað í innleggi í haust. Ég þorði engu að lofa því mæðuveikin er í fénu en það sem lifir í haustverður slátrað en ég á þrjú hross sem Guðmundur á Sæunnarstöðum er búin að kaupa og greiðir með innskrift í haust.  Ég beið lengi eftir svari þegar ég er búin að romsa þessu öllu út úr mér. Hann horfði á mig og sagði ekki neitt. Ég beið. Gunnar tók nú lykla upp úr vasa sínum og opnaði peningaskáp og tók þar út átta hundruð krónur í umslagi og fékk mér. Þú þarft að kvitta þú átt inni eitt hundrað krónur en ég á lítið af byggingarefni það er svo vont að fá það á þessum stríðstímum en ég á ögn af þakjárni á ég að taka það frá fyrir þig. Svona var Gunnar..   Ég fór glaður heim. Faðir minn lá veikur allan þennan vetur eins og áður er skrifað á þessum blöðum.  Oft var hann mikið þjáður og þurfti mikið af kvalastillandi meðulum. Hann dó að kveldi 21 apríl 1941 og var jarðaður frá Hofi 3 maí. Mikið fjölmenni var við jarðaförina. Angantýr og Jóhanna fluttu að Fjalli 14 maí og þá fyrst gat ég farið að snúa mér að húsasmíðinni. Þann 6 maí fórum við Hallgrímur frændi og Páll á Bakka inneftir til að grafa fyrir grunninum og steypa sökkla. 10 maí var grunnurinn tilbúin.


Villi, Hjalti og Jónas fyrir framan Dagsbrún Anna og Valdi eru í glugganum. Myndin er tekin í kring um 1951. Sjá stafninn á Iðavöllum.


Dagsbrúnarsystkinin 62 árum seinna standa þar sem húsið stóð.Sjá stafninn á Iðavöllum.

12 maí fór ég af stað frá Fjalli mjög snemma um morguninn og teymdi reiðhjólið mitt ofan á veg þar beið Hallgrímur eftir mér á reiðhjóli. Nú var hjólað inn á Blönduós til Jóns greiddi ég honum húsverðið. Hann kom með okkur að rífa húsið og gekk það vel rifum við það í fleka. Sófanías bílstjóri á Blönduósi flutti það en hann var með bílinn á staðnum og látið á hann jafnóðum. Þetta gekk vel allt komið á byggingastað um kvöldið. Til gamans má geta þess að Sófanías tók 25 krónum fyrir flutninginn. Páll á Bakka var með okkur Hallgrími að reisa flekana og setja þá saman að öðru leiti unnum við frændurnir að þessari smíði. Viðinn sem við söguðum á Fjalli var ég búin að flytja á kerru inneftir svo hann var þarna við höndina. Unnum við að smíðinni af miklum krafti mátti segja að við hefðum unnið bæði dag og nótt og höfðum gaman að en við vorum báðir hneigðir til smíða. 3 júní fluttum við frá Fjalli í okkar eigið hús sem við nefndum Dagsbrún.


Þarna er Dagsbrún komin í eigu Einars Haraldssonar.

                                     

Skafti Fanndal og Jóna Guðrún standa við gaflinn á Dagsbrún.

        

Mynd af Dagsbrúnarkrökkunum tekin ca,1050.

Frá Fjalli fluttum við búslóðina á einni kerru en ég var búin að flytja ýmislegt dót áður. Þau í Hvammkoti Kristján og Guðríður systir mín fóru með okkur inneftir  Kristján teymdi kúna ég hestakerruna Jóna mín reiddi Jónas litla. Hann var fæddur 26 febrúar og skírður yfir kistu afa síns. Mamma hans hélt honum undir skírn og Guðríður systir hélt á dóttur sinni hlaut hún nafnið Ásta. Guðríður reiddi Hjalta hann var fæddur 8 mars 1940 ferðin gekk vel og nú vorum við flutt í Dagsbrún. Þar eru þrjú af börnunum okkar fædd Vilhjálmur Kristinn 9 apríl 1942 Anna Eygló 12 júní 1944 og Þorvaldur Hreinn 6 júní 1949. Við eignuðumst líka andvana drengi fædda 1952 og 1954. Það var sár reynsla. Oft var byggt við Dagsbrún og hún stækkuð á ýmsa vegu. Vorið 1958 kaupum við efri hæðina á Fellsbraut 5 þá seldi ég Dagsbrún Einari Haraldssyni og Ólínu Hjartardóttur frá Kjalarlandi bjuggu þau þar til 1985 en þau dóu bæði á því ári. Þá var Dagsbrún rifin allt flutt á hauga og brennt. Þá var húsið búið að búa í húsinu samfellt í 42 ár. Við bjuggum þar í 17 ár en Einar og Ólína í 25 ár. Þá var Dagsbrún öll. Og þó !! Á Dagsbrúnar hlaðinu er búið að reisa stórt hús upp á þrjár hæðir Stjórnsýsluhús. Á mið hæðinni er hótel sem hefur fengið nafnið Dagsbrún svo nafnið er enn til.


Skafti Fanndal Jónasson fæddur 25 maí 1915  látinn 2 september 2006.

Jóna Guðrún Vilhjálmsdóttir fædd 15 júlí 1918 látin 13 júlí 2003.

Þau hvíla saman í Spákonufellskirkjugarði


Smá eftirmáli um Dagsbrún:

Á árunum 1936-37 var þetta litla hús reist norðan við Einbúann fyrir verkstjóra í hafnarvinnunni. Hét hann Jón Dagsson bjó hann í því um sumarið. Þá var það selt Guðmundi Kolka á Blönduósi. Hann flutti það þangað og reisti það á staurum. Jón Ben keypti það af Guðmundi ætlaði hann að flytja það heim til sín og hafa það fyrir smíðaverkstæði. Jón var góður smiður. En Jón seldi mér húsið og það var upphafið að heimili okkar sem nefndist Dagsbrún.


Teikning af Dagsbrún eftir Sveinbjörn Blöndal.


Dagsbrúnarkrakkarnir fyrir framan gamla bæinn á Steiníarstöðum 1955.


Valdi hún, Villi og Dísa frænka fyrir framan Dagsbrún.



Hér fremst á sjávarkambinum er Bræðraminni hús sem bræðurnir Skafti og Ólafur frá Fjalli byggðu fyrir móður sína Sigurbjörgu Jónasdóttur.

Hér er komin saga Dagsbrúnar skrifað og rifjað upp í mars 1995.    

Skafti Fanndal Jónasson


  • 1
Flettingar í dag: 55
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 803
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 204301
Samtals gestir: 22369
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 12:19:08