19.10.2010 15:54
Sögur af sjó og landi
Valdi og Ommi
Það er janúar árið 1968 enga vinnu að hafa á Skagaströndinni. Ég og vinur minn og æskufélagi Ómar Jakobsson vorum búnir að ráða okkur á loðnubát frá Sandgerði. Guðbjörgu GK 220 smíðuð í Svíþjóð 1963 206 brt. 650 hest Kromhout. Nú skildi gera góða vertíð og græða á loðnunni eins og Raggi Bjarna söng um hér um árið. Við mættum um borð í Guðbjörgina í Njarðvíkurhöfn fyrstu dagana í janúar þar tók Óli skipstjóri og útgerðarmaður á móti okkur. Bauð hann okkur velkomna og sýndi okkur skipið og leist okkur bara vel á. Bauð Óli okkur að búa um borð og sýndi ofaní stóra frystikistu fulla af mat sem við gætum notað við mundum líta eftir bátnum í staðinn. En tíðin var búin að vera óstöðug og taldi Óli að svo yrði áfram sem líka gekk eftir og fórum við tvisvar eða þrisvar á veiðar í janúar þvældumst austur að Hornafirði fórum þar í bíó og til Vestmannaeyja þar sáum við Gölla Valdason sem svo margir hafa ort um. Ekki var nú veiðinni fyrir að fara nokkrir drullu slattar eins og sagt er á sjóaramáli og ótíð í ofanálag. Það var því oft lengi að líða tíminn hjá okkur félögunum í Njarðvíkinni en mjög góðar hljómflutnings tæki voru um borð með segulbandi og kallkerfi um allt skip hlustuðum við aðallega á Kanann og höfðum hátt ekki síst ef veikara kynið leit um borð og eitthvað var á glasi þá var kátt í Guggunni og við félagarnir búnir að gleyma öllum fyrri partítjónum svo var farið í bíó og böll um helgar í Ungó og Stapann en í framhaldi af því fór að bera á peningaskorti því ílla gekk að fá trygginguna hjá útgerðinni. Einn skipsfélagi okkar átti 8 sílendra Ford Farelane 500 árgerð 1957 rauður og hvítur sannkölluð glæsikerra. Eina helgina bauð hann okkur Omma á rúntinn var hann búin að fá vin sinn til að keyra svo hann gæti dottið í það með okkur var farið víða um Suðurnesin. Um kvöldið vorum við í Keflavík allir vel rakir allt í einu kemur bíll upp að okkur og bíður upp á spyrnu ekki man ég tegundina en þetta var hálfgerð lús miðað við Fordinn. Tók bílstjórinn boðinu með samþykki eigenda var nú ekið inn að Nesti og bílunum stillt upp og sílendrar þandir og ætt af stað söng og hvein í öllu lausamöl þeyttist um allt. Það var strax ljóst að við höfðum ekkert í andstæðinginn að segja þó við værum fljótlega komnir á seinna hundraðið þegar við komum að Herðubreið og Skjaldbreið þar sem malbikið byrjaði var ökumanni greinilega hætt að lítast á ferðina og steig á bremsur en glæra hálka var og byrjaði nú Fordin að snúast í hringi á götunni erfitt er að gera sér grein fyrir því hve marga en við Ommi reyndum að skorða okkur eins og við gátum í aftursætinu og veitti ekki af því að lendingin á ljósastaur var helvíti hörð. Hálf rotuðumst við báðir en þegar við fórum að ranka við okkur sáum við staurinn sem hafði lent á stafnum á milli fram og aftur hurðar hægra megin og stóð langt inní bílinn hver veit nema það hafi bjargað lífi okkar hvar staurinn lenti ?.
Við vorum allir útbíaðir í glerbrotum og eitthvað skornir. Bílstjórinn grét en virtist að öðru leiti í lagi. Eigandinn í algjöru sjokki en virtist nánast ómeiddur okkur félögunum leist ekki á að bíða eftir lögreglu og sjúkrabíl og studdum hvern annan og létum okkur hverfa út í myrkrið og síðan heim til systur minnar sem bjó á Faxabrautinni en hún var alvön að hjúkra okkur og plástra eftir böllin ef mikið gekk á. Fengum við að gista um nóttina enda aumir en óbrotnir daginn eftir þegar við ætluðum um borð var Guðbjörgin farinn úr Njarðvíkurhöfn já "nú var heima" og leist okkur félögunum ekki á blikuna en fórum á símstöðina og hringdum í Magnús útgerðarmann sagði hann að það hafi ekki náðst í okkur til að láta vita um brottför en við ættum að fljúga til Hornafjarðar. Guðbjörg GK 220
Nú var Ómari vini mínum nóg boðið og sagðist ekki koma meir um borð í þessa drullukollu og skildu nú leiðir. Ég fór með flugi til Hornafjarðar og um borð í Gugguna og út til veiða lönduðum á Norðfirði og var þar búið að panta tannlækni til að draga úr mér tennur sem höfðu kvalið mig mikið og beint þaðan niður í lest að landa og ekki var loftið þar allt of hollt og gott því það leið yfir einn skipverja vegna ólofts. Þegar leið að páskum var ákveðið að stoppa fram yfir þá og lágum við þá í Sandgerði. Þá ákváðum ég og Raggi Gunnars skipsfélagi að bregða okkur til Keflavíkur og lyfta okkur svolítið upp enn fjárskortur skyggði á eins og áður en eftir nokkur glös um borð ákváðum við að fara heim til Magnúsar útgerðarmanns og segja honum til syndanna.
Barið var hressilega á dyr Magnúsar og frúin kom til dyra og bauð okkur inn og vorum við Raggi ljúfir sem lömb við hana enda mikil sóma kona. Valdi með 2 stóra Þorska
Þegar Magnús birtist breytist ljúfmennskan okkar því það fyrsta sem hann sagði var að engin peningur væri til og við værum dónar að ryðjast svona heim til hans. Hófum við nú smá fyrirlestur um það hvernig hann kæmi fram við okkur og var að nógu að taka og er einfaldlega ekki allt af því prenthæft. En fyrirlesturinn endaði á því að við sögðumst bera hann út á eyrunum ef hann borgaði ekki strax og slógum í borðið.
Ommi,Valdi og ljúflingurinn Raggi í Stapanum 1968.
Allir með Camel.
Magnús fölnaði verulega við lesturinn og sótti heftið og borgaði upp í skuldina með það fórum við og kölluðum útgerðarmanninn eftir þetta Magga mel. Við Raggi eyddum laugardeginum fyrir páska í Keflavík og kviðum hálfpartinn fyrir kvöldinu ekkert um að vera og ekkert mátti gera nema súpa á bokkunni. Lögreglan stoppaði okkur á Hafnargötunni um kvöldið og spurðu okkur á hvaða ferðalagi við værum við sögðum eins og var bíða eftir að tíminn liði og ætluðum við bara rölta svolítið og síðan til Sandgerðis um borð í Gugguna. Nokkru seinna kom löggan aftur og bauðst nú til að skjóta okkur til Sandgerðis þótti okkur þetta gott boð og ekki skyggði á að við máttum hafa flöskuna hjá okkur í aftursætinu. Var nú haft samband við Sandgerðislögreglu og hún beðin að koma á móti okkur upp á Miðnesheiði og þar haft bílaskipti úr fólksbíl í Svörtu Maríu þegar við höfðum þakkað fyrir okkur. Í þessum bíl var þil á milli þeirra sem sátu frammí með gleri var því lítið um samræður sem nóg var að í hinum bílnum ég er ekki frá því að ég hafi eitthvað dottað en vakna við það að Raggi biður þá frammí að stoppa því hann vilji ekki að lögreglan keyrði okkur að skipshlið þetta var við hafnarvigtina. En engu var svarað þó Raggi kallaði aftur og aftur og erum við komnir fram á efst á skipagarðinum þegar ég veit ekki fyrr en Raggi lemur flöskunni í glerið á milli okkar og þeirra sem frammí voru og hvoru tveggja brotnaði í spað. Og nú stoppaði Svarta María heldur hastarlega og augnabliki síðar var afturhurðunum svift upp og um leið stökk Raggi á löggurnar og duttu þeir allir í drulluna þó ég botnaði ekkert í hvað hafi komið fyrir Ragga vin minn sem alltaf var ljúfur sem lamb þá var hvorki staður né stund til að velta því fyrir sér og lét ég mig vaða í þvöguna og var nú maður á mann þarna veltust við í drullunni við bryggju kantinn og hvorugur hafði betur sjálfsagt hefðum við lent í sjónum ef kanturinn hefði ekki verið. En endirinn var sá að við vorum báðir settir í handjárn og síðan hent inní Svörtu Maríu lentum við báðir með andlitið í gólfinu svo á sá. Var nú ekið á stað til Keflavíkur og viti menn upp á Miðnesheiði erum við færðir yfir í aðra Svarta Maríu og hent út inn í hina ekki lagaðist útlit okkar við þessa meðferð en þarna voru þá komnir vinir okkar frá því fyrr um kvöldið og töldu að við launuðum illa greiðan. Við reyndum að segja þeim hvað hefði skeð en okkur var sagt að steinhalda kjafti og við færum beint í steininn, það gekk eftir og enn og aftur var okkur hent út úr bílnum í götuna og að endingu sparkað inn í fangaklefann
Raggi, Ommi og Valdi með fullan bát af fiski.
þarna lágum við vinirnir í blóði okkar á golfinu bláir og marðir og páskahátíðin að ganga í garð. Eitthvað sváfum við lítið um nóttina og heldur var lágt á okkur risið daginn eftir þegar við vorum reknir út úr steininum fötin ónýt við skelþunnir og með móral í þokkabót. þannig á okkur komnir stauluðumst við heim til Önnu systur sem bar smyrsl og plástur á sárin eins og oft áður. En nú kom senn að síðustu ferðinni minni á Guðbjörgu GK 220 og næstum þeirri síðustu í lífinu.
Við vorum austur við Ingólfshöfða að háfa loðnu úr ágætis kasti vorum að verða búnir að fylla lestina þegar Guggan fór að halla í stjórnborða svo mikið að ég og sá sem var á móti mér á hábandinu stóðum upp í mitti í sjó Óli skipstjóri bað okkur að vera rólega því Gísli vélstjóri væri byrjaður að dæla olíu á milli tanka fór nú Guggan hægt og rólega að réttast við og var nú fyllt í lestina og lúgur skálkaðar og sett á dekkið það sem var eftir að loðnu. Var byrjað að kalda þegar við lögðum á stað fyrir Reykjanes og var þá ekki laust við að sú gamla hallaði aðeins í bak. Ekki man ég hvernig stóð á því að við vorum bara tveir sofandi frammí þegar við komum í Reykjanesröstina. Ég og sextán ára strákur úr Sandgerði vöknum við það að við fljúgum fram úr kojunum og heyrum að slegið er af vél við bröltum upp undir hvalbak en þar var bara ein hurð út á stjórnborða og Guggan lá einmitt á stjórn sem aldrei fyrr reyndum við að losa tessanna en hurðin haggaðist ekki en sjór fossaði inn svo við urðum að tessa hana aftur við vorum mjög hræddir við heyrðum djöflaganginn í veðrinu og fundum hvernig sjórinn braut á hvalbaknum og allt virtist á leið á botninn og ekkert hægt að gera. Þar sem ég var árinu eldri verð ég að reyna að hughreysta skipsfélaga minn en okkur leið ömurlega og ekki síst vegna þess að ekkert heyrðist í kallkerfinu aftan úr brú okkur til sáluhjálpar. Þannig leið nóttin langa þar til við komum inn fyrir Garðskaga þá gátum við opnað hvalbakshurðina en sjór flaut slétt við hurðarkarm og lúgu og næsta víst að illa hefði farið ef lúgan hefði ekki verið vel skálkuð við hefðum reynt að brjótast út undan hvalbaknum. Það var mjög þungt í mér þegar ég kom aftur í brú og spurði ég Óla skipstjóra hvers vegna hann hefði ekki haft samband við okkur í kallkerfinu var fátt um svör.
Ommi og Valdi á leið til í siglingu með Arnari.
Hreytti ég þá út úr mér þú hefðir kannski getað hvatt okkur ! Fór svo niður í borðsal og fékk mér kaffi og í pípu til að róa taugarnar. Við komuna til Njarðvíkur var maður frá siglingarstofnun á garðinum og var haffærið tekið af Guggunni á staðnum. Það er fljót að fljúga fiskisagan enda var sent út neyðarkall um nóttina. Var gerð krafa um að svokallaðar kafbátalúgur væru settar í staðin fyrir boxalok í síðum áður en nýtt haffæriyrði gefið út. Var ekki útlit fyrir meiri loðnu veiði og okkur sagt að það yrði farið á net eftir lagfæringar. Ég átti mjög erfitt með svefn eftir þetta áfall og gat ekki hugsað mér að sofa um borð í Guggunni í höfn hvað þá veiðum og fann nú fyrir sjóhræðslu sem var óþekkt áður. Það hefur áður skeð að ég get verið sallarólegur á ögurstund en áfallið kemur seinna. Ég tó því pokann minn ákveðin í að fara ekki meira til sjós. Réði mig í beitingu í Garðinum á Ölduna RE. Dreif mig í bílpróf og 1 apríl hætti ég að reykja og beitti fram í miðjan maí þá hélt ég heim til Skagastrandar og var svo sannarlega reynslunni ríkari. Já jafnvel enn 40 árum síðar.
Skersó í jan 2008 VALDI hún